Mörkin ekki markvörðunum að kenna

13/10/2016

Bjarki Reyr Jóhannesson er SR-ingur í húð og hár. Hann hefur alla tíð verið hjá félaginu, sýnt því mikla hollustu og þannig verið góð fyrirmynd. Leiðin hefur legið í leiðtogahlutverk innan liðsins. Nú er svo komið að hann er fyrirliði meistaraflokks karla, þótt ungur sé, aðeins 20 ára. Bjarki hefur tekið þátt í mörgum mótum með U18 og U20 ára landsliðunum og eitt mót með A-landsliðinu. En aldrei spilað fyrir annað félag.   Leiktíðin hefur verið upp og niður hjá SR sem af er tímabili, en kannski ekki við öðru að búast með svona ungt lið og menn enn að stilla saman strengi.
SR-hokkí átti samtal við fyrirliðann og hann sagði okkur frá ýmsu sem varðar liðið akkúrat núna, framhaldið og fleira.

Það eru margir bjartir punktar í spilum SR þessa dagana. Byrjum á nýjum þjálfara. Richard Tahtinen er aðalþjálfari liðsins og SR-ingum að góðu kunnur. Nú er hann kominn aftur.

Þú, verandi SR í gegn, getur sagt okkur frá því hvað hann er að koma með inn í liðið, samanborið við fyrri þjálfara. Hvernig lýst ykkur á kallinn?

“Flestir í liðinu þekktu Richard áður enn hann hóf störf í sumar, hann þjálfaði marga okkar þegar við vorum yngri og þekkir okkur sem leikmenn. Ég held að flestir hafi verið sáttir með að heyra að hann myndi þjálfa okkur í vetur í stað Bandaríkjamannsins sem ætlaði að koma. Bæði vegna þess að það þekkti engin til hans en allir þekkja Richard og kunna að meta hann sem þjálfara.”

Fljótt á litið virðist SR vera með yngsta liðið í deildinni í ár og þjálfarinn notar mikið yngstu strákana. Hver er þín tilfinning fyrir þessum nýja kjarna? Hvað einkennir þá og er öðruvísi í samanburði við elstu kempur liðsins?

“Ungt lið býður upp á bjarta framtíð. Ungir og efnilegir strákar eru að fá að spila, safna reynslu og bæta sig. Reynsluboltarnir spila auðvitað stórt hlutverk í leik liðsins og við að byggja upp yngri leikmenn. Ég er mjög jákvæður fyrir þessu og það er góður andi í liðinu.”

Eins og áður segir þá eru ljósir punktar, t.d. ungur mölli sem verður brátt reiðubúinn í að bítast um krúnuna við Ævar markmann. En eitthvað segir mér að þú sért ekki ánægður með stigafjöldan sem af er? Hvað þarf SR að gera til að stoppa lekann og klára leiki?

“Arnar, oft kallaður kötturinn, hefur margsannað hvað hann er hraður og sterkur markmaður og það verður vissulega hart barist um markvarðarstöðuna á þessu og komandi tímabilum. Við erum búnir að fá mikið af mörkum á okkur í síðustu leikjum en ég held að það sé lítið hægt að kenna markmönnunum um það heldur meira varnarleik liðsins í heild sinni. Það er auðvitað eitthvað sem við erum að tala um, æfa og bæta.”

Fyrir lesendur sem þekkja ekki til, getur þú tilgreint erlenda leikmenn sem eru hjá okkur þátt þeirra í leik liðsins?

bjarki-actionMilos Racanský er frá Tékklandi og þetta er fjórða tímabilið hans hjá SR. Hann er virkilega hraður og skemmtilegur leikmaður.  Robbie Sigurðsson (aðstoðarfyrirliði) er hálfur Íslendingur sem ólst upp í Ameríku. Hann er núna að spila þriðja tímabilið sitt í röð fyrir SR og er tekknískur og góður “playmaker”.  Jan Kilibár er frá Tékklandi. Hann er mikilvæg viðbót við liðið sem stór og sterkur varnarmaður.  Oldrich Herman (“Bakarinn”) er einnig frá Tékklandi. Hann kom til landsins til að vinna sem bakari og ákvað koma og spila fyrir SR. Hann er reynslumikill og góður leikmaður.  Josh Popsie er Ameríkani sem kom til landsins sem starfsmaður IcelandAir. Hann er búinn að vera æfa með okkur sem markmaður og vera á bekknum í leikjum, Rikka til aðstoðar.”

Hvaða lið er SR erfiðast og hvaða leikmann finnst þér skemmtilegast að eiga við?

“Það er erfitt að svara þessari spurningu. Mikill munur er á okkur eins og hinum liðunum á milli leikja og lítið er búið af tímabilinu. Stærsta tapið okkar var gegn Birninum en vonandi snýst það við þegar líður á tímabilið. Ætli mér persónulega finnist ekki skemmtilegast að kljást við gömlu SR-ingana í Esjunni.”

Tímabilið 2013 til 2014 var eftirminnilegt.

“Það tímabil byrjaði nú ekkert alltof vel frekar en þetta en við héldum áfram og bættum okkur. Þa vorum við líka með eldra lið og sterka útlendinga í vörninni. Það small bara allt saman seinni part tímabils.”

Úrslitarimman núna verður…?

“Skautafélag Reykjavíkur gegn UMFK Esja.”