SR-ingar í landsliðsæfingahóp

07/10/2016

Heimasíða ÍHÍ sagði frá því í gær hvaða leikmenn hafa verið valdir í landsliðsæfingahóp kvennalandsliðs Íslands í íshokkí. Það er skemmst frá því að segja að við eigum tvo leikmenn í þessari flottu grúppu. Það eru þær Alexandra Hafsteinsdóttir og Álfheiður Sigmarsdóttir sem munu æfa í vetur fram að heimsmeistaramóti kvenna sem fer fram á Akureyri þann 27. febrúar til 5. mars 2017. Við erum að sjálfsögðu afar stolt af okkar stelpum og óskum þeim til hamingju með heiðurinn.
SRhokkí hafði samband við Alexöndru og Álfheiði til að fá þeirra fyrstu viðbrögð.

“ÞETTA ER ÞAÐ SKEMMTILEGASTA SEM ÉG GERI OG TEKUR HUGANN AF ÖLLU ÖÐRU SEM ER Í GANGI Í LÍFINU”

Til hamingju með valið! Áttir þú von á þessu og hvernig líður þér?

Alexandra: Takk fyrir! En jú ég átti alveg von á þessu þar sem ég var í æfingarhópnum fram að lokavalinu á síðasta tímabili, þannig að ég rétt komst ekki inn í landsliðið, en ég er bara spennt fyrir þessu!

Álfheiður: Takk fyrir það. Nei, ég þorði nú ekki að búast við því en vonaði alltaf.

Hefur það lengi verið takmark þitt að komast í þennan hóp og hvernig hefur þín leið legið í hann?

Alexandra: Í rauninni ekki, þar sem ég hef alltaf bara spilað hokkí og reynt ad bæta mig fyrir sjálfa mig og liðið mitt, því þetta er það skemmtilegasta sem ég geri og tekur hugann af öllu öðru sem er í gangi í lífinu. En ég eiginlega veit ekkert hvernig ég endaði upp í æfingarcampinu í fyrsta lagi þar sem ég fékk bara skilaboð frá einum þjálfaranun allt í einu í hitt í fyrra.

Álfheiður: Hefur langað að vera með frá því ég var smástelpa, þó að þegar ég var yngri hafi ég ekki búist við því að vera að gera það í markmannsbúning. Ég er búin að vera í hokkýi síðan ég var ellefu ára, með langri pásu því ég flutti utanlands þar sem var lítið um kvennalið. Byrjaði eftir það í marki og finnst mér ég alveg vera í mínu elementi þar.

Getur þú lýst undirbúningi þínum sem hokkíleikmanns bæði fyrir deildarleiki og landsliðið?

Alexandra: Ég reyni bara að mæta á allar æfingar og gera mitt besta á æfingum alveg eins og í leikjum, gera eins og þjálfarinn segir, reyna að fá nægan svefn og borða nægan mat, og hollan, alltaf þegar ég get, og ef ég þarf að læra daginn sem ég er að keppa segi ég bara fokk it, hokkí skiptir meira máli.

Álfheiður: Gameday hjá mér snýst aðallega um að reyna að halda stressinu í lágmarki, muna að borða og drekka nóg vatn. Allt annað kemur á sjálfu sér.

Hvernig lýst þér á veturinn hjá SR?

Alexandra: Við í kvennaliðinu höfum náð að bæta okkur alveg ótrúlega mikið bæði sem lið og sem einstaklingar. Við höfum alltaf verið lélegasta liðið í deildinni en aldrei látið það draga okkur niður og reynt að bæta okkur eins og við getum og núna erum við loksins að sjá árangurinn erfiðis okkar. Við unnum fyrsta leikinn okkar gegn Birninum í gær. Ég sé ekki fram á annað en rosalega spennandi tímabil.

Álfheiður: Bara mjög vel, þetta er besta byrjun á tímabili hjá kvennaliðinu sem ég hef upplifað, við erum með margmennt og sterkt lið sem ég hlakka til að fá að sjá hvað getur saman.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum til ungs fólks sem er að byrja í hokkí eða að hugsa um að prófa?

Alexandra: Setjið ykkur markmið og ekki gefast upp, ekki þótt þú sért eina stelpan í liðinu eða ef þú ert að æfa niður fyrir þig, því að á endanum mun allt borga sig! Og til þeirra sem vilja byrja að æfa: ekki gefast upp og beila eftir fyrstu prufu bara vegna þess að þú stóðst ekki í lappirnar í fyrsta skiptið á skautunum. Allir bestu leikmennirnir byrjuðu á nákvæmlega sama stað. Þetta tekur tíma en kemur á endanum, og þá geturu ekki hugsað þér lífið án íshokkís.

Álfheiður: Einfaldlega að þið munið ekki sjá eftir því. Það eru til fáar betri tilfinningar en að vera hluti af liðsheild, hvað þá í svona ótrúlega skemmtilegri íþrótt sem hokkýið er.