SR-ingar réðu ekki við grimman Björninn

03/10/2016

Síðastliðinn föstudag áttust Reykjavíkurliðin við í meistaraflokki karla. Rimmur þessara liða hafa oftar en ekki verið afar spennandi. Það er skemmtileg hefð fyrir heilbrigðum ríg á milli SR og Bjarnarins sem síðan skilar sér í mögnuðum leikjum sem halda stuðningsfólki beggja liða á sætisbrúninni. En því var ekki þannig farið síðastliðið föstudagskvöld.

Tiltölulegt jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og eitthvað yfir í aðra. Ákefð Bjarnarins var slík að margir leikmanna þeirra enduðu í skammakróknum og þar með spiluðu SR-ingar einum til tveimur leikmönnum fleirri nokkrum sinnum í leiknum án þess að geta fært sér það almennilega í nyt.  SR-ingar misstu svo einn lykilmanna sinna, Miloslav Racansky, út af vegna meiðsla (pökkur í andlit) og virtist sá missir ásamt pressu Bjarnarins slá okkar menn út af laginu. Þrátt fyrir markmannsskipti SR-inga og villuvandræði Bjarnarins, þá komast Grafarvogsliðið á bragðið, stakk heimamenn af og unu sér ekki hvíldar fyrr en staðan var orðin 2 – 8 og dómari flautaði til leiksloka.

Það var töluverður hiti í mönnum allan leikin eins og verða vill þegar þessi lið mætast. Eins og áður segir gátu SR-ingar ekki nýtt sér power play sín, misstu pökkin oft í sínu svæði og sérstaklega á svæði Bjararins og stóðust ekki frampressu gestanna. Því fór sem fór.  Ljósasti punkturinn í þessu öllu saman er sá að Richard Tahtinen, þjálfari SR, keyrði töluvert á yngstu sóknarlínu sinni í þriðja leikhluta og náðu þessir ungu strákar upp góðu spili og pressu Bjarnarmegin og ullu þannig töluverðum usla í vörn sigurvegaranna. Annar ljós punktur er svo afar góð mæting stuðningsmanna beggja liða.