Baráttusigur gegn Birninum á föstudag

28/11/2016

Á síðasta föstudagskvöld tók SR á móti Birninum í Skautahöllinni.  Björninn er í öðru sæti deildarinnar á eftir Esju með 16 stig og fyrirfram var búist við að SR-ingar myndu eiga erfiðan leik fyrir höndum.  En raunin var allt önnur.  SR-ingar komu skipulagðir til leiks og sýndu mikla vinnusemi og aga í sínum varnarleik gegn frísku liði Bjarnarins sem sótti nær án afláts allar þrjár loturnar. Til marks um sóknarþunga Bjarnarmanna þá fékk Ævar Þór Björnsson á sig 54 skot í leiknum.

Robbie Sigurðsson var drjúgur fyrir SR-inga einsog oft áður og skoraði gríðarlega flott mark um miðja aðra lotu.  Hann var einnig að verki í seinna marki SR þegar hann skaut frá miðju í tómt mark Bjarnarmanna undir lok þriðju lotu.  Hann hefur verið að raða inn mörkum og stoðsendingum í undanförnum leikjum. Þegar SR-hokkí spurði  hvort hann væri í beinu sambandi við hokkíguðina hunsaði hann spurninguna. Ekki mikið fyrir að vera í kastljósinu sem beinist sérstaklega að honum. Varðandi lykilinn að velgengni síðustu tveggja leikja segir hann það einfaldlega vera það að spila eins og lagt er upp með. Maður fárra orða. En hann harmar að næsti leikur sé tvær vikur inn í framtíðina því liðið sé að hitna og er á góðu flugi.

Fyrirliðinn Bjarki Reyr þakkar m.a. markverði sínum, Ævari Björnssyni, sigurinn. “Eigum ævari mikið að þakka. Við mættum bara fullir af orku og spiluðum okkar leik”.

Viktor Örn í vörninni var spurður um álagið með svona fá varnarmenn sér við hlið. “Við gerðum það líka í leiknum á móti SA, en það er mjög erfitt”. Honum fannst allir í liðinu standa sig vel og segir engan hafi gefist upp.
Richard Tahtinen gefur strákunum allan heiðurinn. Hann segir þá hafa aldrei brugðið sér frá leikplaninu og hafa fengið á sig færri brottvísanir en við eigum að venjast. Hann segir þá duglega og baráttuglaða. Varðandi framhaldið segir hann liðið ætla að spila í þessum dúr og halda áfram að leggja áherslu á þau atriði sem lagt hefur verið upp með í allan vetur.

Hér að neðan má sjá viðtal við Ævar Þór Björnsson, markmann meistaraflokks.