Fyrri hluti Íslandsmóts hjá 4.flokki lokið

03/11/2016

Síðastliðna helgi fór fram fyrsti hluti íslandsmóts í fjórðaflokksliðum landsins. Að þessu sinni voru SR liðin tvö og ber það þess glöggt vitni að yngriflokkastarf félagsins er að skila góðum árangri. Undir fána SR spiluðu samnefnt lið og svo SR Fálkar. Mótið, sem fram fór í Skautahöllinni í Laugardalnum, er hið fyrsta af þremur. Liðið sem stendur uppi með besta árangurinn eftir mótin þrjú mun hampa Íslandsmeistaratitlinum.

SR Fálkar unnu þrjá leiki en tapaði einum gegn SA Víkingum. SR tapaði báðum leikjum sínum við SA en unnu Björninn í tvígang. Flottur árangur hjá okkar fólki. Verður fróðlegt að sjá hvort þau næli sér í dolluna í lok tímabils. Við höfum tröllatrú á því. En það sem skiptir mestu er að skemmta sér vel og gera sitt besta. Það finnst okkur mest um hjá Skautafélagi Reykjavíkur!

SRhokkí náði tali af Arnari Smára Karvelssyni, hinum 11 ára gamla miðjumanni. Hann spilar fyrir SR Fálka og gerir það vel. Hann sagðist ánægður mið liðsheild Fálka, “Við spiluðum saman eins og lið.” Hann talaði ennfremur um að vörnin hafi bætt sig mikið og það sé mikilvægt. Varðandi hluti sem þarf að vinna í til að ná betri árangri, nefndi hann skiptingarna. Arnar vill að þær séu styttri. Góð pæling hjá okkar manni.
Að síðustu spurðum við hvernig hann ætli að undirbúa sig fyrir næstu lotu íslandsmótsins. Það stóð ekki á hnitmiðuðu svarinu. “Ég ætla að æfa mig eins mikið og ég get til að verða hraðari.” Flugbeittur og ákveðinn, hann Arnar Smári.

Framtíðin er björt hjá öllum SR krökkum. Áfram SR!

Myndir: Elín María og Arna Rúnars.