MJÓTT Á MUNUM Á AKUREYRI

09/11/2016

Þrátt fyrir að SR dvelji í kjallara Hertz-deildarinnar í íshokkí um þessar mundir þá verður seint sagt um okkar menn að þeir gefi sig vonleysinu á vald. Þvert á móti. Fyrir hvern einasta leik er góður mórall í liðinu og sérstaklega fyrir Akureyraferðina í gær, þar sem allir virtust fókuseraðir á markmiðið að gera SA lífið leitt og vinna leikinn. Aðstoðarfyrirliðinn Kári Guðlaugsson sagði liðið hugsa ekki um stórt tap eftir síðasta leik við SA. Og klykkti svo út með því að segja liðið virkilega peppað fyrir viðureignina. Auðvitað!

Richard Tahtinen þjálfari tók í sama streng. “Þegar pökkurinn snertir ísinn í fyrsta skiptið í kvöld þá er allur fókusinn á þeim leik og athygli okkar berst að því sem raunverulega skiptir máli í kvöld, sem eru smáatriðin, kerfið sem við viljum spila og hvernig við högum okkur á ísnum.”

Stuttu áður en dómari ræsti leikinn sagði Bjarki Reyr fyrirliði að það væri “virkilega góð stemning í liðinu eftir hörku rútuferð. Við stefnum að sjálfsögðu á sigur!” Og úrslitin bera þess glöggt vitni. SA vann með tveimur mörkum gegn einu marki Kára Guðlaugs. Tæpara mátti það ekki standa.
SR-ingar tóku sig á í þessum leik hvað villuvandræði varðar. Svo mikið reyndar að enginn sat í skammakróknum í síðust lotunni, en samt börðust þeir hart til að jafna. Richard þjálfari hafði einmitt lagt upp með slíkan aga í huga. “Strákarnir mega ekki láta mótherja sína koma sér úr andlegu jafnvægi og enda þannig í skammakróknum vegna pirrings og skilja þá sem sem á ísnum eru eftir einum færri.” Þetta gekk svo upp.

En kraftspilsmark Andra Mikaelssonar í annari lotu hélt út leikinn. Tómas Ómarsson lék ekki með SR í þessum leik og munar um minna hvað vörnina snertir. Vonandi fáum við hann til baka sem fyrst.

Bjarki Reyr var nokkuð brattur í lok leiks og þrátt fyrir ósigursóbragð þá teldi hann tilfinninguna í liðinu góða.
“Við erum nokkuð sáttir með leikinn í heildina. Auðvitað lika fullt sem má bæta og eftir svona jafnan og skemmtilegan leik getur sigurinn alltaf endað báðum megin,” sagði fyrirliðinn keikur að lokum.

Nánar um leikinn hér
SA-SR leikur 8. nóvember 2016

Mynd: Elvar Freyr Pálsson