VIÐBURÐARRÍK ÆFING: 3.fl, 4.fl OG MFL RENNA SAMAN

24/12/2016

Síðastliðinn mánudag endurtók meistaraflokkur SR leikinn frá því í fyrra þegar þeir tóku þátt í æfingu 3. og 4. flokks félagsins. Hefur þessi uppákoma nú fest sig í sessi og á væntanlega eftir að öðlast enn mikilvægari sess á æfingadagatali krakkanna þegar fram líða stundir.

Stigahæst leikmaður meistaraflokks karla, Robbie Sigurðsson, var einn þeirra sem mætti. Gott ef hann var ekki mættur á svellið og klár í slaginn á undan öllum körrunum. SRhokkí hafði það eftir honum að þessi æfing hafi verið krökkunum góð og að þau hafi klárlega notið sín vel og haft gaman. Hokkíhetja Robbie var Mario Lemieux sem gerði garðinn frægan með Pittsburgh Penguins. “Nei, ég fékk aldrei að æfa með honum, hann kom ekki á mína æfingu þegar ég var í þriðja og fjórða flokk.” Robbie sagðist þó hafa verið heppinn með að geta fylgst með hetjunni í sjónvarpinu. “Ég skautaði og æfði alltaf með eldri leikmönnum sem ég leit upp til og það ýtti mér lengra til að gera betur,” sagði þessi vinsæli SR-ingur að lokum. En það er einmitt eitthvað sem ungur SR-ingarnir tengja við og fengu kost á að gera á þessari æfingu.

Jóhann Már Kristjánsson spilar með 4. flokk SR. Hann var að vonum eldhress með uppátækið. Hann vildi spila oftur við stóru gaurana. “Ég hef áður spilað við einhverja þeirra en alls ekki alla.” Hann segir meistaraflokkinn ekki hafa verið þarna til að kenna þeim yngri eitthvað, heldur meira til að hafa gaman og kynnast. Hann vill líka meina að Miloslav Račanský og Daníel Steinþór hafi verið manna ferskastir á æfingunni. Jóhanni fannst mjög gaman þegar meistaraflokkur spilaði gegn þeim, “þeir spiluðu með öfugan boga miðað við það sem þeir spila venjulega með. Ég hefði viljað að þeir spiluðu með venjulegum boga.” Greinilegt að Jóhann vill engan afslátt þegar hann tekst á við andstæðinga sína!

Arnar Grant, annar markvarða meistaraflokks, lét mikið að sér kveða á þessari eftirminnilegu æfingu. Alltaf stutt í grínið, og frammistaða hans í vítaskotskeppninni stóð upp úr hjá mörgum. “Þetta voru svona spari markvörslur,” sagði hann kíminn. Hann segir þetta flipp sem hann hafi þróað. “Til dæmis þegar ég reyni að verja eins og ég sé handboltamarkvörður og þegar ég fór í öfuga hanska.” En það flipp sem honum finnst sjálfum skemmtielgast er þegar hann hermir eftir markvarðarstíl Martin nokkurs Brodeur. Sá kappi er atkvæðamesti markvörður NHL frá upphafi. Arnar segir hinn Fransk-Kanadíska markmann hafa verið af gamla skólanum og þekktur fyrir ævintýraleg tilþrif.
Þegar Arnar var í 4. flokk þá gafst honum ekki kostur á að fá svona flotta gesti á æfingu og lagði hann því sérstaka áherslu á að krakkarnir skemmtu sér. Hann trúir að svona æfingar efli andann. “Mikilvægt að fá að kynnast yngri krökkunum. Það er sönn ánægja fyrir okkur og þau.”

Brynhildur Hjaltested spilar í 4. flokki hún var ekki svikinn. Henni þótti mjög áhugavert að fá þessa kalla á æfingu til sín, en hún hafði ekki fyrr tekið þátt í neinu svona. Hún segist hafa lært ýmislegt af meistaraflokkshetjunum. Henni þótti Miloslav skemmtilegastur. Um leikinn gegn stóru strákunum sagði hún, “það var það fyndnasta í heimi þeir eru sannkallaðir meistarar. En líka svo áhugasamir og efnilegir.”

Það er því ljóst að næstu æfingar af þessu tagi verður beðið með mikilli eftirvæntingu og alls ekki ólíklegt að þar muni eitthvað koma á óvart. Áfram SR!