Milos ráðinn yfirþjálfari barnastarfs íshokkídeildar SR

08/02/2018

Miloslav Račanský, sem er íslenskum hokkíaðdáendum að góðu kunnur, hefur verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Hann mun stýra uppbyggingu barnastarfs hjá félaginu ásamt þjálfun frá 1. ágúst næstkomandi.

Milos, eins og hann er jafnan kallaður, er frá Vlasim í Tékklandi og kemur úr mikilli hokkífjölskyldu. Hann lærði að skauta þriggja ára en byrjaði að æfa íshokkí 5 ára.

Milos hefur búið og starfað á Íslandi síðan hann gekk í raðir meistaraflokks SR árið 2013 þá 19 ára gamall en hann hefur verið einn af lykilmönnum liðsins. Hann hefur þjálfað 3. flokk SR síðastliðin þrjú ár við góðan róm ásamt því að vera einn af þjálfurum í tékknesk-kandadísku sumarhokkíbúðunum í Prag frá árinu 2016.

Skautafélagið býður Milos velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

 

Milos í leik með SR. Ljósmynd: Elvar Freyr