Ísland mætir Belgíu í kvöld – viðtal við Kára

23/04/2022

Kári Arnarsson átti frábært tímabil með SR í vetur, þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur endaði hann næst-stigahæstur í allri deildinni. Hann er með blátt hokkíblóð í æðum og að sögn kunnugra er hann alltaf síðastur út af ísnum á æfingum. Við tókum Kára tali.

Þú áttir frábært tímabil í Herzt-deildinni í vetur. Í fyrra varstu með 7 stig (6 mörk og 1 stoðsendingu) í 9 leikjum, Tæplega 0.7 stig að meðaltali. En í ár endaðir þú næst-stigahæstur í allri deildinni með 33 stig (14 mörk og 19 stoðsendingar) í 16 leikjum, rúm 2 stig að meðaltali í leik.

Hvað er að baki þessum árangri og stökki milli ára?

Ég styrkti mig mikið yfir sumarið og tók mataræðið í gegn, varð hraðari og sterkari.

En aðalatriðið er að við sem lið byrjuðum að vinna leiki og skora miklu meira og urðum bara allir betri. Með því kemur meira sjálfstraust og maður spilar betur.“

Nú ertu komin af mikilli hokkí-fjölskyldu, afi þinn Sveinn bakari goðsögn úr SR og pabbi þinn Arnar og bræður hans voru leikmenn með SR. Er mikil pressa með alla þessa arfleið á bakinu?

„Ég myndi alls ekki kalla þetta pressu, pabbi minn hefur alltaf sýnt mér mikinn stuðning og án hans væri ég ekki leikmaðurinn sem ég er núna.

Er talað um eitthvað annað en íshokkí í fjölskylduboðum?

„Haha, við tölum mikið um íshokkí en stundum breytum við til og tölum um fótbolta.“

Nú skoraðir þú þitt fyrsta A-landsliðsmark gegn Georgíu í vikunni í hörkuleik. Hvernig var sú tilfinning, þitt fyrsta mark í mikilvægum baráttuleik sem endar með sigri?

Geggjuð tilfinning, það er alltaf gaman að skora og sérstaklega fyrir landsliðið en aðalatriðið er að við sigruðum leikinn.“

Hvernig líst þér á lokaleikinn á móti Belgum?

Þeir eru með sterkt lið og þetta verður spennandi leikur. Ef við spilum okkar leik þá er þetta okkar leikur.“

Ísland mætir Belgíu í lokaleik mótsins kl. 20.00. Úrslit mótsins ráðast í þessum leik. Ísland þarf sigur en má tapa með einu marki til að tryggja sér gullið og sæti í næstu deild fyrir ofan að ári.