Björt framtíð kvennaliðs SR – viðtal

14/11/2022

Alexander Medvedev og Sölvi Freyr Atlason þjálfarar hafa staðið í stórræðum síðustu misseri við að endurbyggja kvennalið SR frá grunni. Liðið er hálfnað á sínu þriðja tímabili og er nú þegar komið á þann stað sem flestir bjuggust við að tæki allavega fimm ár.

Alex, sem búið hefur hér síðan 2016, tók ekki annað í mál en að þetta viðtal færi fram á íslensku. Hann og konan hans, Ulyana, sem er læknir á Landspítalanum Fossvogi stefna á að fá íslenskan ríkisborgararétt og setjast hér að enda elska þau land og þjóð. Alex, sem er íþróttafræðingur, vinnur á heimili fyrir börn með geðfatlanir ásamt því að þjálfa U10, U12 og kvennalið SR. Hann tók óvænt við kvennaliðinu fyrir tímabilið 2019-2020 og hefur stýrt því síðan.

Alexander: „Það var mjög áhugavert að taka við þessu liði og skemmtilegt að sjá alla þessa ungu leikmenn sem höfðu mikinn áhuga á að spila fyrir meistaraflokk.“

Sölvi Freyr kom heim frá tveggja ára dvöl í Finnlandi árið 2021 þar sem hann spilaði með Roki í Lapplandi og kom þá inn í þjálfarateymi kvennaliðsins. Sölvi er einn af mörgum ungu og efnilegum leikmönnum karlaliðsins, var með 25 stig í 14 leikjum á síðasta tímabili

Sölvi:
„Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni og það hefur verið gaman að fylgjast með framförunum sem stelpurnar hafa tekið á þessum stutta tíma sem ég hef verið með liðinu.“

En hvert er hans hlutverk í teyminu?

Sölvi: „
Mitt verkefni er að aðstoða bæði Alex og stelpurnar. Ég reyni að hafa auga á smáatriðunum, bæði á æfingum og leikjum og hjálpa stelpunum að mynda góðar venjur í leikstílnum sínum.“

Framfarnir á liðinu hafa verið eftirtektarverðar á þessum tímabilum, sérstaklega varnarlega. Liðið fór úr því að tapa stórt yfir í að tapa með örfáum mörkum í undanförnum leikjum. Hver er uppskrifitin að árangri?

Alex:
„Ég held það séu góðum samskiptum milli þjálfara og leikmanna að þakka. Svo er sérhver góður leikur hvatning fyrir leikmenn til að spila enn betur næst. Við höfum öll (stjórn, þjálfarar og leikmenn) markmið sem við erum að stefna að. Einnig finna stelpurnar fyrir miklum stuðningi frá SR.“

Sölvi: „Við erum með ungt lið og allir leikir fara beint í reynslubankann. Allar stelpurnar hafa sýnt góðan karakter og lagt mikinn metnað í að bæta sig eftir hvern leik.“

Talandi um markmið, eru einhver markmið á blaði sem unnið er eftir?

Alex:
„Vinna sem lið og gefast aldrei upp.“

Sölvi:
„Sækja fyrsta sigurinn og fyrstu stigin. Styrkja meistaraflokk kvenna SR.“

Er eitthvað sem hefur komið ykkur sérstaklega á óvart þennan tíma með liðið?

Alex:
„Mér finnst mjög gaman að sjá alla leikmenn berjast í hverri vakt á ísnum. Það var ekki þannig í upphafi.“

Sölvi:
„Framfarirnar á þessu tímabili hafa komið mér á óvart, mér finnst allir vera að bæta sig bæði sem lið og einstaklingar með hverri viku.“

Hvernig líst ykkur á deildina í ár?

Sölvi: „Deildin virðist vera jafnari en áður sem er bara verulega gott, það eiga engir leikir að vera auðveldir. Það myndar líka spennu í deildinni sem er gott fyrir áhorf.“

Hvernig lítur framtíð kvennaliðsins út?

Alex: „Það eru fullt af leikmönnum í yngri flokkum SR sem með tímanum verða tilbúnir til að spila fyrir meistaraflokka. Með fleiri leikjum mun kvennaíshokkí á Íslandi halda áfram að þroskast og þróast.“

Sölvi:„
Það eru efnilegar stelpur í yngri flokkunum, svo framtíðin er björt. Það er mikilvægt að uppbygging í kvennahokkí haldi áfram svo að þessi árangur geti haldið áfram á komandi árum.“

Næsti leikur kvennaliðs SR er í Egilshöll fimmtudaginn 24. nóvember gegn Fjölni.
Við hvetjum alla til að mæta á pallana og styðja stelpurnar okkar!