Enginn sigur gefinn í vetur – Saga Blöndal yfir í SR

08/07/2023

Saga Blöndal er íshokkífólki að góðu kunn en hún tók sér hlé frá íþróttinni síðasta tímabil. Nú rífur hún skautana fram og ætlar að taka slaginn með kvennaliði SR.

Nú er ertu að flytja í bæinn og munt spila með kvennaliði SR í vetur, hvað varð til þess?

„Mig langaði bara til þess að breyta aðeins til og prófa að búa fyrir sunnan. Búin að vera að flakka smá á milli Svíþjóðar og Akureyrar seinustu ár og var komin með smá löngun í að prófa eitthvað nýtt. Flestar norðanstelpurnar sem hafa flutt suður hingað til hafa farið í Fjölni en mig langar að gera deildina eins skemmtilega og hægt er. Kvennalið SR er með ótrúlega efnilegar og ungar stelpur og mér finnst kominn tími til að það séu þrjú jöfn lið í deildinni.“

Saga spilaði með Södertälje tímabilið 2021-2022, Troja-Ljungby tímabilið 2019-2020 og uppeldisfélaginu SA tímabilið á milli.

Hvernig var að búa og spila í Svíþjóð og hver er helsti munurinn hokkílega milli landanna?

„Það gat alveg verið erfitt á tímum, Svíar eru frekar ferkantaðir og ekki miklar félagsverur og tala oft ekkert svakalega góða ensku, en mér mun alltaf þykja vænt um tímann minn þar og sakna þess af og til að vera þarna. Hokkíið þar er auðvitað ekki sambærilegt við það íslenska, bæði bara miklu meiri hokkímenning í Svíþjóð yfir höfuð, en síðan myndi ég segja að helsti munurinn væri hraðinn. Sænskt hokkí þvingar mann til að taka miklu sneggri ákvarðanir á ísnum, en það er það sem gerir það skemmtilegt að mínu mati. Samkeppnin er líka mikil á milli liðsfélaga og það er stöðugt verið að keppast um ístíma í leikjum.“

Saga er tæplega tvítug en má samt segja að hún sé hokin af reynslu, hefur spilað sjö tímabil í efstu deild, tekið þátt í þremur heimsmeistaramótum og einni ólympíuforkeppni.

Hvernig líst þér á Hertz-deild kvenna í vetur? Eins og þú nefndir eru nokkrar úr SA að flytja suður eða erlendis og deildin því líklega mun jafnari en oft áður, er eitthvað hægt að spá í spilin fyrir þetta tímabil?

„Ég held bara að þetta verði eitt jafnasta tímabilið hingað til, Fjölnir var með marga sterka leikmenn nú þegar og eru núna með nokkrar norðanstelpur í viðbót við það sem gerir þær að sjálfsögðu sigurstranglegar. En engin sigur verður gefinn í vetur.“

Saga er klárlega mikill liðsstyrkur fyrir SR í vetur enda með stig að meðaltali í leik í Hertz-deild kvenna.

Nú verður landsliðið áfram í A riðli 2. deildar sem verður á Spáni í mars á næsta ári. Ætlar þú að gefa aftur kost á þér í landsliðið og hvernig líst þér á þetta verkefni?

„Já ég reikna með því að ég gefi kost á mér þetta tímabil. Mér finnst þetta skemmtileg áskorun fyrir liðið og finnst við klárlega eiga heima á þessu leveli.“

„Ég hlakka til að spila með ykkur í vetur og þetta verður svaka skemmtilegt tímabil“ segir Saga að lokum.

Hertz-deild kvenna hefst í september, það er spennandi deild framundan sem vert er að fylgjast með.