Skautar – umhirða þeirra

Val á skautum og umhirða er undirstaða eðlilegra framfara einstaklingsins í íþróttinni og skal þetta haft í huga strax frá byrjun. Oft og tíðum telja foreldrar að búnaður skipti ekki svo miklu máli fyrst um sinn, þ.e. á meðan nemandinn er að átta sig á hvort honum líki íþróttin og vilji halda áfram. Viðeigandi útbúnaður er hins vegar grundvöllur fyrir því að einstaklingurinn fái notið þess að læra grunnatriði íþróttarinnar. Áhugi stjórnast gjarnan af því að nemandinn merkir framfarir og þess vegna er mikilvægt að huga að réttum búnaði strax í upphafi.

Hvernig skauta á að kaupa?

Skautarnir þurfa að styðja vel við ökklana og áríðandi er að skautarnir séu í réttri stærð. Gerð skautanna þarf m.a. að hæfa færni og líkamsþyngd einstaklingsins. Það borgar sig því að hafa samráð við þjálfara áður en nýir skautar eru keyptir. Frekari upplýsingar um skauta og skautastærðir og um nýja skauta hér.

Skautablöð – skerping
Ástand skautablaðanna skiptir einnig verulegu máli. Þau þurfa að vera rétt fest undir skóinn og skerping þarf að vera nákvæm og því mikilvægt að fagmaður komi þar að. Góð skerping er mikilvæg fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Listskautablöð hafa sérstakt form sem hentar til að framkvæma þær æfingar sem íþróttin byggir á og það er mjög mikilvægt að þetta form haldist þegar blöðin eru skerpt. Ef farið er rangt að við skerpinguna er hætta á að blöðin verði ónothæf. Ónýt eða illa skerpt blöð hindra framfarir og sóa þannig dýrmætum æfinga-og kennslutíma. Nákvæm skerping skiptir öllu máli því þannig endast blöðin lengur og vinna með einstaklingum, en ekki á móti.

Það þarf að skerpa blöðin regulega og til viðmiðunar ætti sá sem skautar um tvo tíma á viku að láta skerpa skautana sína a u.þ.b. tveggja til þriggja mánaða resti en einstaklingur sem skautar fimm tíma á viku að skerpa á u.þ.b. sex vikna fresti. Ný skautablöð þarf að skerpa áður en notkun hefst.

Nokkur atriði varðandi útbúnað og umhirðu:

Gott er að fá ráð hjá þjálfara varðandi val á skautum.

Skautarnir þurfa að vera í réttri stærð, ekki meira en fingurbreidd fyrir aftan hæl. Ekki á að nota lopasokka á skautum.

Reima þarf skautana þéttast yfir ökklann, lausar efst og yfir tær en þó ekki svo að fingur komist undir reimar.

Skerpa þarf skautana reglulega hjá fagmanni.

Ávallt skal nota plasthlífar þegar gengið er á skautunum utan svells.

Geyma skal skautana með tauhlífum utan um skautablöðin.

Aldrei skal geyma skautana í plashlífunum. Það getur skemmt blöðin.

Þurrka skal blöðin vel eftir notkun, þ.e áður en tauhlífarnar eru settar á.

Gott er að lofta um skautana eftir æfingar.