Undirbúningur fyrir mót

Fyrir mótið

Í byrjun sumars eða snemma að hausti þarf skautari að yfirfara keppnisdans eða fá nýjan ef þarf. Keppnisdansar eru kenndir í einkatímum og greiða þarf sérstaklega fyrir þá. Þar er gott aðgengi að músíkinni og þjálfarinn getur einbeitt sér að einum skautara. Einnig þarf skautari að eiga keppnisfatnað (yfirleitt kjólar).

Athuga í tíma, minnst 2 vikur fyrir mót, hvort þörf sé á að skerpa blöðin á skautunum.Ekki er gott að skerpa nokkrum dögum fyrir mót. Skautar þurfa að vera snyrtilegir og er gott að bera á þá hvítan skóáburð fyrir mót. Athuga hvort skautar og reimar séu í góðu ástandi.

Athuga að keppnisgjald sé greitt minnst 3 vikum fyrir mót og gengið frá ferðkostnaði sé keppnin utan Reykjavíkur.

Á mótum

Skautarar skulu ávallt vera mættir 40-60 mínútum fyrir áætlaðan keppnistíma. Hár og farði skal þá vera tilbúið.

Skautarar Skautafélags Reykjavíkur eiga alltaf að sýna fyllstu íþróttamennsku, tillitsemi og kurteisi á mótum, bæði þeim sem haldin eru í félaginu og sem gestir annarra félaga.

Skautarar eiga að mæta í félagspeysum sínum á mót, æskilegt er að  þeir eina slíka.

Búningur þarf að vera þægilegur og passa vel. Pils á kjólum mega vera síðari en rétt niður á læri.  Athuga skal að ekki sjáist í nærföt.

Sokkabuxur eiga ekki að vera götóttar. Gott er að hafa nál og tvinna í töskunni ef gera þarf við. Einnig má nota brúnan heftiplástur til að redda sér.

Hár á að vera snyrtilega frá gengið og spennur og skraut vel fest. Detti slíkt af meðan skautari skautar prógramið sitt getur það kostað minus í einkunnagjöf.

Andlitsfarða á að stilla í hóf, ekki er æskilegt að keppendur undir 14 ára aldri mæti með andlitsfarða í keppnir.

Á mótum skal passa að rétt sé gengið frá reimum á skautunum.

Keppandi þarf að eiga tvo geisladiska í töskunni sinni með keppnistónlistinni sinni. Skila þarf inn einu eintaki á mótsstað og gott er að láta þjálfara fá annað eintak til öryggis. Þjálfarar sjá núorðið oft um að koma tónlist á keppnir.

Keppendur eiga að vera mættir á mótsstað amk. klukkustund fyrir áætlaðan keppnistíma.

Í töskunni er gott að hafa;
Skauta
Félagspeysu
Heilar sokkabuxur og auka eintak
Íþróttaskó
Vatnsbrúsa ( varst þó að drekka mikið vatn rétt áður en farið er inn á ísinn að keppa)
Fylgihluti fyrir hár; spennur, teygjur, hárlakk, glimmer o.þ.h.
Farða
Skautahlífar og handklæði til að þurrka blöðin.
Tvö eintök af tónlist á CD
Sippuband til upphitunar
Plástra/hnéhlífar og bunga hlífar fyrir ökkla
Skóáburð
Auka reimar

Á mótinu skal hafa í huga:
Hanskar og hjálmar eru ekki leyfð á mótum.

Þegar keppendur hafa lokið keppni er það góður siður að hvetja félagið sitt með því að mæta á pallana.
Tilkynna skal forföll með þriggja vikna fyrirvara. Ef skautari sem skráður er til keppni forfallast er áríðandi að tilkynna það til mótshaldara um leið og ljóst er að viðkomandi muni ekki keppa. Eftir að keppandi hefur verið skráður til keppni fást keppnisgjöld ekki endurgreidd nema gegn læknisvottorði.

Stjórn LSR beinir því til foreldra að iðkendur séu ekki að henda gjöfum inn á svellið til vina í keppnum og að þannig gjafir séu einskorðaðar við foreldra, afa og ömmur og ættingja. Tilmæli þessu eru komin til vegna ábendinga frá foreldrum um að vinkonugjafir sem þessar skapi oft á tíðum leiðindum á milli iðkenda og auk þess oft óþarfa útgjöldum.