Friðrika Ragna til Kanada

24/08/2025

SR-ingurinn Friðrika Ragna Magnúsdóttir ætlar að taka slaginn í Kanada í vetur, með U19 skólaliði Ste-Cécile Stallion. Friðrika var valin íshokkíkona SR fyrir árið 2024 og búin að vera einn öflugasti sóknarmaður SR síðustu ár þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur verið ein af kjölfestunum í U18 landsliði stúlkna og tók þátt í sínu fyrsta A-landsliðsverkefni á síðasta tímabili. Við forvitnuðumst hjá Friðriku um þetta ævintýri og hvernig það kom til.


Þú ert á leiðinni til Kanada, hvað getur þú sagt okkur um liðið, borgina og hvernig það kom til að þú ert að fara þangað?

„Ég hef lengi verið með það markmið að fara erlendis eftir grunnskóla til að spila íshokkí og fara í framhaldsskóla. Ég var búin að vera að horfa til Svíþjóðar þar sem reyndir íslenskir leikmenn hafa farið og spilað íshokkí á síðustu árum, þar á meðal bróðir minn, Hákon Marteinn. Þessir leikmenn hafa talað vel um Svíþjóð því þar eru næg tækifæri til að bæta sig sem leikmann. Svo síðastliðinn vetur þá stefndi hugurinn þangað.

Það var á U18 heimsmeistaramótinu í Tyrklandi í janúar sem Kim McCullough landsliðsþjálfari fór að tala um tækifæri sem bjóðast í Kanada og við fjölskyldan fórum að skoða þá möguleika í samráði við landsliðsþjálfarann. Hún þekkir vel til kvennaíshokkís í Kanada og hefur þjálfað mig í tvö ár svo það var mikils virði að fá hennar aðstoð við að finna lið við hæfi.

Eftir að hafa rætt við nokkur lið skrifaði ég að lokum undir hjá Ste-Cécile Stallions. Þetta lið er íshokkíliðið í samnefndum alþjóðlegum skóla. Samkvæmt þjálfaranum er þetta íshokkí á mjög háu getustigi og mjög mörg og góð tækifæri til að bæta mig sem leikmann. Við spilum rúmlega 50 leiki á tímabilinu bæði í Kanada og Bandaríkjunum. Svo tökum við einnig þátt í svokölluðum „showcase“ mótum nokkrum sinnum yfir tímabilið.

Það hjálpaði til við ákvörðunina að SA-ingurinn Gunnar Arason hafði einnig spilað fyrir þetta lið. Það var gott að leita til hans og hann gaf liðinu mjög góð meðmæli. Hann spilaði fyrir yfirþjálfarann, Robb Serviss, og við vorum mjög hrifin af þeirri hugmyndafræði sem Robb kynnti fyrir okkur.

Þegar ég var að skoða íshokkílið þá lagði ég líka mikla áherslu á að ég hefði aðgang að góðum skóla. Ég var ekki bara að horfa til þessa að hokkíið væri gott heldur þurfti skólinn að vera góður líka. Það er rauninn með Ste- Cécile. Þessi skóli útskrifar nemendur úr framhaldsskóla sem hafa fengið góða styrki til náms víða um heim. Langtíma markmið mitt er einmitt að reyna að komast á íshokkístyrk í háskóla í Kanada eða Bandaríkjunum.

Liðið er staðsett í Windsor í Kanada. Þetta er landamærabær við Detroit í Bandaríkjunum, aðeins Detroit áin sem skilur að löndin. Íbúafjöldinn er í kringum 230.000 íbúar. Það hjálpaði einnig við ákvörðunina að ég mun búa á heimavist með öðrum alþjóðlegum nemendum og það verður hugsað mjög vel um okkur.“

Við hverju býstu við að fá út úr þessu sem leikmaður og líka sem persóna?

„Ég er að fara út til að reyna að bæta mig sem leikmann, verða hraðari og öðlast betri leikskilning. Ég hlakka til að kynnast því hvernig hokkí er spilað í Kanada og Ameríku. Hér eru fleiri tækifæri til að bæta sig, aðbúnaðurinn er góður og samkeppnin um stöður er meiri,  sem er frábært!


Það er stórt stökk að flytja ein til annars lands 16 ára. Það er ein vika síðan ég kom og ég er að læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi! Bæði inn á svellinu og einnig utan þess. Skólinn er krefjandi svo ég þarf að skipuleggja tíma minn mjög vel til að ná að sinna öllu vel, bæði skólanum og hokkíinu. 

Ég veit að þetta verður mjög þroskandi fyrir mig og þó að það séu allir tilbúnir til að aðstoða mig þá þarf ég að standa á eigin fótum, treysta á sjálfa mig og taka ábyrgð.

Skólinn sem ég er í er alþjóðlegur skóli. Hér eru krakkar frá yfir 20 löndum svo ég er að eignast vini sem koma alls staðar að og það er mjög gaman að fá innsýn í mismunandi menningarheima.“

Við hlökkum til að fylgjast með hokkíævintýrum Friðriku í Kanada í vetur og óskum henni góðs gengis.