Fljúgum hærra – nýtt tímabil að hefjast

09/09/2025

Nýtt íshokkítímabil er handan við hornið og er það kvennaliðið sem hefur leik næsta þriðjudag 16. september gegn tvöföldum Íslandsmeistrum Fjölnis í Laugardalnum. Laugardaginn 20. september opnar svo karlalið SR sitt tímabil með leik gegn Jötnum, sem er yngra lið SA-inga.

Yfirlit yfir heimaleiki og versla miða

Kaupa árskort fyrir tímabilið


Kvennalið SR

Liðið er mikið breytt frá því í fyrra þegar það náði sínum besta árangri frá upphafi, spilaði frábært íshokkí seinnihluta tímabilsins og sótti 15 stig í greipar andstæðinganna. Liðið hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku þar sem erlendu leikmennirnir Alice Gasperini og Zuzanna Sliacka snúa ekki aftur, Saga Blöndal og Andrea markvörður spila í Svíþjóð þetta tímabil og Friðrika Ragna í Kanada. Alexandra ætlar að taka sér hlé frá íshokkí í vetur.

En liðið hefur sótt sterka leikmenn og ætti því að vera mjög samkeppnishæft fyrir tímabilið og til alls líklegt að bæta góðan árangur síðasta tímabils. Liðið fékk þrjá leikmenn frá Karlskrona í Svíþjóð. Kanadíska markvörðinn Julianna Thomson, sóknarkonurnar Eleonor Ålstig frá Svíþjóð og Maríu Eiríksdóttur sem uppalin er á Akureyri. Í síðustu viku höfðu síðan landsliðskonurnar Berglind Leifsdóttir og Teresa Snorradóttir félagaskipti frá Íslandsmeisturum Fjölnis til SR.

Eduard Kascak og Sölvi Atlason eru þjálfarar liðsins.

Karlalið SR

Liðið kemur nokkuð óbreytt undan sumri en þó snýr hinn tékkneski Lukas Dinga ekki aftur og Helgi Bjarnason spilar á Englandi í vetur.

En liðið hefur sótt mikinn liðsstyrk sem mun auka breidd hópsins og þétta raðirnar mikið fyrir komandi baráttu í deildinni. Fjórir leikmenn sneru aftur úr ársleyfi hjá Skautafélagi Hafnarfjarðar, Styrmir Maack, Heiðar Kristveigarson, Ævar Arngrímsson og Gabríel Gunnlaugsson. Að auki bætast í hópinn tékkneski varnarmaðurinn Matej Houdek og ítalski sóknarmaðurinn Denny Deanasi.

Milos Racansky og Will Lightburn eru þjálfarar liðsins.

Hlökkum til að sjá ykkur í Skautahöllinni í Laugardal í vetur

Fljúgum hærra!
Áfram SR