SR-ingurinn Helgi Bjarnason gekk á dögunum til liðs við U19 lið Leeds Knights í Norður Englandi. Leeds er um 500.000 manna borg í Vestur York-skírí og er félagið aðeins 4 ára gamalt en hefur náð undraverðum árangri á stuttum tíma. Flestir tengja knattspyrnu og jafnvel ruðning við landið en ekki mörgum dettur íshokkí í hug þegar England ber á góma. Það er nú samt þannig að karlalið Bretlands spilar í efstu deild á HM og breska Elite deildin er risastór og trekkti að 1.2 milljón áhorfendur sem sóttu leiki á síðasta tímabili. Helgi, sem er 16 að verða 17 ára, hefur verið öflugur leikmaður í gegnum yngri flokka SR og hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað á þremur heimsmeistaramótum með U18 landsliðinu, tveimur með U20 landsliðinu og tveimur Continental Cup með SR. Við tókum Helga í stutt spjall og forvitnuðumst um flutninginn til Englands.
Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fara út til Englands að spila íshokkí?
„Ég fór út vegna þess að maður hefur heyrt það alls staðar hvað þetta er mikilvæg reynsla, sérstaklega fyrir leikmenn á t.d. Íslandi þar sem þú hefur bara tvo andstæðinga og örfáa leiki hvert tímabil. Hérna spila ég fleiri leiki, kynnist nýju fólki, prófa nýjar aðstæður og vonandi kem ég heim reynsluríkari og allavega aðeins betri í hokkí.“
Getur þú sagt okkur aðeins frá liðinu þínu og félaginu.
„Í Englandi spila ég í U19, bæði Nationals (sem eru lið úr öllu landinu) og Division 1 (sem eru lið úr norðurhluta Bretlands). Leeds Knights eru með tvö meistaraflokkslið og ég æfi með öðru þeirra Leeds Knights 2 sem spilar í NIHL1 (þriðja deild Bretlands) og vonandi fæ ég að spila einhverja leiki. Hitt liðið, Leeds Knights er í NIHL sem er í annarri deild Bretlands og eru búnir að vinna deildir og bikara hægri vinstri seinustu ár. Úrvalsdeildin hérna (EIHL) er mjög stór með mörgum þekktum liðum.“
Hvernig líst þér á liðsfélaga, þjálfara og fólkið í kringum félagið og hvernig hafa Englendingar tekið á móti þér almennt?
„Liðsfélagarnir eru skemmtilegir og þjálfararnir mjög góðir, allir hafa tekið mjög vel á móti mér, spjallað við mig og svoleiðis þó að það sé stundum erfitt að skilja þá með þykka breska hreimnum. Hjónin sem ég er hjá eru frábær og mjög hjálpsöm. Hef fengið mjög góðar móttökur og líður mjög vel hérna.“
Við óskum Helga góðs gengis í Englandi og hlökkum til að fylgjast með honum í vetur