Saga til Svíþjóðar

12/10/2025

Við höldum áfram að fylgjst með hokkíævintýrum SR-inga erlendis en Saga Blöndal, sem spilaði með félaginu síðustu tvö tímabil, flutti til Svíþjóðar í haust. Hún spilar nú fyrir Björklöven í NDHL sem er næst efsta deild í Svíþjóð. Björklöven, eða birkilaufin eins og það útleggst á íslensku, er frá borginni Umea sem telur um 130.000 manns í norður Svíþjóð. Við tókum púlsinn á Sögu nú þegar tímabilið er farið í gang og hún búin að spila nokkra leiki.

Getur þú sagt okkur aðeins frá liðinu sem þú ert að spila með og hvernig tímabilið hefur farið af stað hjá ykkur?

Ég spila fyrir Björklöven sem er staðsett í Umeå í Svíþjóð og spilum við í norður riðli NDHL deildar. Tímabilið hefur farið ágætlega af stað, þjálfararnir eru mjög kröfuharðir og við erum á ís nánast alla daga vikunnar. Það eru leikir sem við hefðum auðveldlega átt að vinna en gerðum ekki þannig að liðið er ennþá smá að koma sér í gírinn. Aftur á móti þá unnum við síðasta leik 5-1 og leikinn þar á undan 17-0 þannig vonandi erum við bara á uppleið.“

Nýtt land og nýtt lið en þú hefur áður spilaði í Svíþjóð með Södertalje og Troja-Lungby. Hvernig er Björklöven í samanburði við hin?

„Öll liðin hafa sína kosti og var utanumhaldið í bæði SSK og í Troja mjög gott en ég er alveg að dýrka það að vera hér. Liðið er svo mikil fjölskylda og bærinn sjálfur svo ótrúlega fallegur og rólegur. Það spilar líka inn í að ég er orðin allavega nokkurn vegin fullorðin núna og búin að þroskast töluvert sem leikmaður og persóna.“

Nú fór Andrea, fyrrum liðsfélagi þinn úr SR, einnig út til Svíþjóðar en hún spilar í austurdeildinni með Almtuna IS. Mætast þessi lið eitthvað á tímabilinu?

„Það er alveg möguleiki! Þegar regular season er búið tekur Allsvenskan við, þar sem lið allsstaðar að keppast, þá er möguleiki að við lendum saman í riðli sem væri auðvitað frábært. En það eru tveir Íslendingar, Sunna og Katrín að spila í SSK sem er líka í austurdeildinni þannig það mætast allavega einhverjir Íslendingar á ísnum í vetur.“

Þegar þetta er ritað ert þú búin að spila fimm leiki í deildinni og komin með fimm stig – þetta byrjar vel hjá þér. Þannig að þú ert að finna þig vel þarna í liðinu?

„Já algjörlega. Það er alltaf gott að geta stimplað sig inn í deildina og skila inn einhverjum stigum, bara vona að ég nái að halda því áfram.“

Við óskum Sögu góðs gengis í Svíþjóð og hlökkum til að fylgjast með henni í vetur.