Á þriðjudagskvöld heimsóttu SRingar Björninn upp í Grafarvog.
SRingar komu full afslappaðir inn í leikinn og Bjarnarmenn komust yfir, einum fleiri á ís, með marki Kristjáns Alberts þegar rúmar ellefu mínútur voru liðnar af leiknum. Leiðinda atvik varð þegar Robbie Sigurdsson, einn af lykilmönnum okkar, virtist fá kylfu í andlitið og skarst á tungunni og þurfti að bruna með hann á slysadeild. Hann átti þó eftir að láta til sín taka síðar í leiknum. Þegar hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta koma Úlfar Andrésson Bjarnarmönnum síðan í 2-0. Afar klaufalegt hjá okkar mönnum þar sem þeir voru einum fleiri á ísnum þegar þetta gerðist.
Eitthvað hefur Richard þjálfari látið drengina heyra það í leikhléinu þar sem menn virtust koma mun betur stemmdir til leiks í öðrum leikhluta. Endurkoma Robbie af slysó, og nú með heila grind fyrir andlitinu, hafði örugglega jákvæð áhrif. Leikhlutinn var þó nokkuð tíðindalítill en létu liðsmenn beggja liða kasta sér í refsiboxið til skiptis. SR náði að verjast þrír á móti fimm í næstum tvær mínútur, glæsilega gert.
Þriðji leikhluti leiksins verður vonandi til þess að kynda aðeins í mönnum og bæta sjálfstraustið eftur heldur magurt gengi undanfarið.
Skemmst er frá því að segja að Bjarnarmenn bættu við tveimur mörkum á fyrst fjórum mínútunum. Útlitið var vægast sagt ekki gott. Bjarnarmenn komu sér í veruleg vandræði með því að láta reka sig út af og náðu SRingar að setja inn mark 5 á móti 3. Þar var að verki Robbie Sigurdsson með aðstoð Jan Kolibar og Milosar.
Fjórum mínútum síðar kom Herman Oldrich pekkinum yfir línuna eftir mikla þvögu í teig Bjarnarmanna. Staðan 4-2. Hörku kraftspils mark hjá strákunum.
Áfram var sótt og Jan skorar glæsilegt bakhandarmark af stuttu færi. 4-3 og hjörtu SRinga á pöllunum farin að slá heldur hratt.
Bjarnarmönnum tókst síðan að næla sér í tvær brottvísarnir með stuttu millibili og SR því tveim mönnum fleiri. Skemmst frá því að segja að SRingar voru staðráðnir í að nýta sér liðsmuninn og Jan skoraði sitt annað mark í leiknum með skoti af nokkru færi. 4-4 og innan við mínúta eftir.
Þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum slapp Falur bjarnarmaður í gegn en Ævar sá við honum og í því var flautað og framlenging raunin.
Í framlengingunni sóttu liðin til skiptis og bæði hefðu með sönnu getað gert út um leikinn. Það hafðist þó ekki og vítakeppni raunin.
Ævar varði vítið frá Fal og Guðna svo átti Robbie skot í þverslána, Brynjar Bergmann skoraði fyrir Björninn og Ómar, markvörður Bjarnarins varði frá Jan Kolibar. Það var síðan Úlfar Andrésson sem skoraði sigurmarkið.
Loksins sýndu okkar menn sitt rétta andlit og karakter. Það er alltaf ferlega fúlt að tapa, en miðað við gengið undanfarið þá fögnum við stiginu og vonum til þess að þetta blási mönnum í brjóst.
Nú tekur við tveggja vikna leikja pása hjá okkur. Ágætt að fá smá tíma til að fínstilla þau atriði sem þarf að laga.
myndina sem fylgir fréttinni tók Gunnar Jónatansson