MÓRALSKUR STÓRSIGUR SR Á SA

21/11/2016
Þegar dómari flautaði til leiks og dúndraði pekkinum á miðju skautasvellsins í Laugardal áttu viðstaddir og þau sem sátu heima ekki von á sérlega miklu. Lítið tap í tvísínum leik með mikilli baráttu SR hefði verið ásættanlegt. Sigur hefði verið óvæntur miðað við gengi liðsins undanfarið, en kærkomin tilbreyting. En markaregn og öruggur stórsigur á Íslandsmeisturum SA, á því áttu sennilega fæstir von. Nema kanski leikmenn Skautafélags Reykjavíkur.
Sjáðu til, lesandi góður. Stuðningsfólk SR hefur staðið þétt við sitt lið í allan vetur, óháð gengi þess. Liðið hefur leikið vasklega, tapaða með naumindum og jú, unnið. En ólánið og ringulreið á svellinu hefur einkennt liðið í of langan tíma fyrir marga. Það mikið reyndar að það var óvenju fámennt í stúkunni í gær. Allir þurfa hlé. En strákarnir okkar notuðu þetta, sem og fleira sem aðeins þeir þekkja, eins og bensín á eldinn. Og þá gerðist eitthvað sem einkennir lið sem getur; þeir unnu örugglega, þeir sýndu á sér nýjar hliðar, þeir þjöppuðu sér saman og umfram allt, þeir gáfu öðrum SR-ingum ástæðu til að koma aftur í Laugardalinn og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Þegar dómari flautaði til leiksloka og liðin skautuðu, móð, í átt að búningsklefum sínum, þá hafði Skautafélag Reykjavíkur komið kexinu níu sinnum í möskvann en norðanmenn aðeins fjórum sinnum.
Viktor Örn Svavarsson, ungur varnarmaður SR, hefur látið mikið að sér kveða í vetur og stigið nokkur skref upp í ábyrgðarstiga SR-kerfisins þar sem hann spilar nú stóra rullu. Viktor, sem skoraði eitt mark í leiknum, er í vetur að fá fleiri mínútur á ís og tekur þátt í kraftspili (powerplay) liðsins. Hann spilar gjarnan á línu með Tómasi Omarssyni og Miloslav Racancky. Við spurðum hvað hafi verið öðruvísi hjá liðinu þetta kvöld en önnur. “Við spiluðum bara stöðurnar okkar og náðum að stilla upp, og svo var lykilatriði að við töluðum meira samann inn á ís”.  Er þá átt við í leiknum sjálfum? Viktor sagði það ekki endilega aðal atriðið, heldur að strákarnir tali af meiri ákefð saman á æfingum. Náist þannig sterkakri samfella milli æfingar og deildarleikja. Varðandi aukin ís-tíma nefnir Viktor að Richard þjálfari sé að gefa sér góða punkta, svo fer hann inn á og gerir sitt besta. Það er greinilega að virka því þjálfari SR notar varnamanninn meira en áður í kraftspil, svo dæmi séu tekin. Spurður um hvort aukinni ábyrgð fylgi ekki pressa, svaraði Viktor svona. “Eins og ég sagði, þá fer ég inn á, held minni stöðu og geri mitt besta”.
Kári Guðlaugsson, aðstoðafyrirliði, skoraði mark í leiknum og átti þrjár stoðsendingar. Hann hafi ætlað að skjóta til að búa til frákast handa Bjarka Rey Jóhannessyni, fyrirliða, og skapa þannig marktækifæri fyrir hann. “Bjarki missti af honum svo ég tók það bara sjálfur,” og skoraði.
Richard þjálfari þakkar leikmönnum árangurinn, fyrst og fremst. “Þeir náðu ákveðnu jafnvægi milli ákefðar og kænsku sem hélt út leikinn.”
En það var Robbie nokkur Sigurðsson sem húrraði inn stigum fyrir liðið. Hann skoraði heil fimm mörk og átti fjórar stoðsendingar. Þannig bætti hann í Hertz-deildarsarp sinn heilum níu stigum. “Við vorum bara klókir,” sagði Robbie eftir leikinn. Hann nefnir einnig að liðið hafi talað betur saman. “Sendingarnar voru nákvæmari.” Undanfarið hafi þeir eytt miklum tíma í sínu eigin svæði og varist, en nú hafi þeir eytt meiri tíma á svæði andstæðingsins. Varðandi breyttar áherslur sagði hann Richard hafa lagt upp með bara tvær sóknalínur og fjóra varnarmenn. “Við tókum leikinn okkar á hærra plan og gáfum mikið í þetta,” sagði Robbie að síðustu.