09/12/2016
Þriðjudaginn 6. desember mættu stelpurnar okkar Birninum í annað skiptið í vetur. Fyrir leikinn voru SR sigurstranglegra liðið, með fleiri stig í deildinni og á ágætis flugi. Áhorfendur voru á því að þær hefðu átt að vinna leikinn, því færin og skotin voru mörg. En allt kom fyrir ekki. Björninn verndaði forystu sína og fór með öll stigin yfir í Grafarvoginn.
Álfheiður Sigmarsdóttir skóf ekki af hlutinum eftir leik og taldi sjálfa sig m.a. ábyrga. Hún segir lið sitt nánast ekki hafa verið til staðar helming fyrsta leikhlutar. “Þetta voru mörk sem hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir, bæði fyrir varnarmennina og mig, en svona gerist þegar maður nær sér ekki andlega inní leikinn frá fyrstu sekúndu.”
Bæði mörk Bjarnarins komu einmitt í fyrsta leikhluta. Alexandra Hafsteinsdóttir tekur undir með markmanni sínum. “Við vorum bara ekki alveg vaknaðar epa komnar i gírinn.” Hún sagði þó að þessi skellur hafi vakið þær og í kjölfarið hafi þær bæði sótt og varist betur.
Jóhanna Bárðardóttir vill einnig meina að liðið hafi verið óvenju lengi í gang, og að óheppni hefði að hluta spilað inn í örlögin. “Eftir annað markið varð leikurinn mjög jafn og spennandi.”
Að hennar mati barðist SR vel og komst í mörg góð færi en pökkurinn vildi ekki inn. “Það er samt alveg á hreinu að við fundum fyrir því að okkur vantaði nokkra sterka leikmenn í liðið frá því við mættum Bjarnarstelpum síðast.” Erla Jóhannesdóttir var sama sinnis. Að hennar mati var SR ekki lakari aðilinn í leiknum. “Við náðum bara ekki að nýta færin sem við fengum og koma pekkinum í netið.”
“Tvo seinni leikhlutana vorum við þó mættar og áttum nokkur góð skot á mark, en það var bara því miður ekki nóg til þess að ná okkur uppúr gryfjunni sem við grófum okkur í byrjun leiks,” segir Álfheiður.“Við höldum áfram að byggja upp liðið og mætum öflugar í næsta leik,” sagði Jóhanna að lokum.
Það er löngu orðið ljóst að það er ómögulegt að berja niður andann og spilagleði SR-kvenna og verður gaman að sjá þær galvaskar í næsta leik. Áfram SR!