Allir ættu að prófa íshokkí – viðtal

01/03/2020
Friðrika og Brynja íshokkístelpur hjá SR fóru í skemmtilegt viðtal við Barnablað Morgunblaðsins. Þær verða að sjálfsögðu á stelpuæfingu á morgun mánudag kl. 18.15. Þær hvetja allar stelpur til að koma og prufa íshokkí hjá SR. Við tökum vel á móti byrjendum, allur búnaður á staðnum og frítt að prófa.
 
Hvernig er að spila íshokkí?
Friðrika: Mér finnst alveg geggjað að spila íshokkí. Það er svo mikið fjör og hraði á ísnum. Það er alveg geggjað.
Brynja: Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert á ævi minni. Það var bara svo gaman að byrja að æfa.
 
Hvað hafi þið æft íshokkí lengi?
Friðrika: Í um 5-6 ár.
Brynja: Í fimm mánuði.
 
Hvers vegna byrjuðu þið að æfa íshokkí?
Friðrika: Ég ólst upp í íshokkífjölskyldu. Við erum mörg í íshokkí og mér finnst það alveg geggjað. Afi, frændur mínir og bróðir minn sem er núna í Svíþjóð. Þeir eru búnir að fara með mig oft að skauta og mér finnst það ótrúlega gaman. Þannig að ég byrjaði að æfa og kynntist fullt af vinum. Svo er þjálfarinn minn mjög skemmtilegur.
Brynja: Mamma sá inn á Facebook að maður mætti fá að prófa 10 tíma og þá langaði mig að prófa. Mér fannst ógeðslega erfitt að halda á kylfunni fyrst en núna er ég alveg með þetta á hreinu.
 
Hverjar eru fyrirmyndir ykkar í íþróttinni?
Friðrika: Hákon bróðir minn sem er úti í Svíþjóð, hann er fyrirmyndin mín. Og svo líka þjálfarinn minn og frændur mínir og Saga sem er í kvennalandsliðinu.
Brynja: Þjálfararnir mínir og vinir. Þeir eru mjög góðir. Það eru eiginlega allir fyrirmyndir mínar sem eru í sama flokki og ég.
 
Hafið þið dottið í íshokkí?
Friðrika: Já, ég hef alveg dottið. Það hafa örugglega alveg mjög margir dottið því að íshokkí er alveg erfitt. Það er erfitt að byrja að skauta fyrst á svellinu og svo er alveg barátta í íshokkíínu þegar við erum að keppa og eitthvað. En við erum í búningnum svo við meiðumst ekki þegar við dettum. Maður meiðir sig ekkert.
Brynja: Ég hef oft dottið. En ég stend alltaf aftur upp. Ef ég er þreytt þá bara hvíli ég mig kannsi í 5 sekúndur og stend svo aftur upp.
 
Hvað gerið þið á æfingum?
Friðrika: Við getum skautaæfingar og förum stundum í tækniæfingar og stundum spilum við. Þá gerum við svona „einn á einn“. Það er þegar það eru tveir sem mætast og eiga að reyna að komast fram hjá hvor öðrum og skora.
Brynja: Oftast gerum við skautaæfingar og stundum spilum við. Svo erum við stundum bara eitthvað að leika okkur.
 
Af hverju ættu stelpur að æfa íshokkí?
Friðrika: Það er ótrúlega skemmtileg íþrótt og stelpur og strákar mega koma að æfa. Þetta er alveg geggjað. Það voru ekki mjög stelpur fyrst en svo byrjuðu mjög margar og við getum alltaf tekið á móti fleirum.
Brynja: Ég held að það þurfi aðeins fleiri stelpur. Það er bara svo gaman í íshokkí að það eiga bara allir að mæta og prófa. Allavega að prófa að því að þetta er svo svakalega gaman. Það er hægt að fara líka í fjóra tíma á viku þannig að maður getur farið á einhverja af þeim tímum til að prófa.
 
Hvað mynduð þið vilja segja við stelpur sem hafa áhuga á því að byrja í íshokkí?
Friðrika: Bara prófa að mæta. Þetta er alveg geggjað gaman. Að prófa að mæta og spila íshokkí.
Brynja: Bara koma og prófa og hafa gaman. Ef þið dettið þá bara standið þið upp aftur og ekkert vera að hugsa um að aðrir séu betri en þið eða lélegri. Bara að hugsa um sjálfan sig og hafa gaman.