Milos og Alexandra íshokkífólk SR árið 2020

30/12/2020

Íshokkífólk ársins 2020 hjá SR er Alexandra Hafsteinsdóttir og Miloslav Racansky.

Vegna Covid hafa Hertz-deildir og heimsmeistaramót að miklu leyti farið forgörðum í ár. Þá er tækifæri til að horfa inn á við við val á íshokkífólki ársins og skoða hverjir hafa verið í framlínunni í uppbyggingarstarfi okkar. Þar stóðu uppi tveir mjög afgerandi valkostir, Milos og Alexandra,  leikmenn, þjálfarar, landsliðsfólk og frábærar fyrirmyndir í alla staði. Bæði hafa þau staðið með SR í gegnum þykkt og þunnt.

Alexandra, sem er lykilleikmaður í kvennaliði SR, byrjaði að þjálfa hjá okkur fyrir tæpum þremur árum og lét strax til sín taka. Ásamt því að þjálfa í yngri flokkunum hefur hún leitt uppbyggingu kvennastarfs með metnaði, jákvæðni og drifkrafti. Frá því að teknar voru upp sérstakar stelpuæfingar undir hennar stjórn hefur okkur tekist að fjórfalda fjölda stúlkna hjá félaginu, úr 8 haustið 2018 upp í 40 nú á þessu ári. Alexandra spilaði með kvennalandsliðinu á HM í febrúar síðastliðnum sem gerði sér lítið fyrir og sótti silfur. Ásamt því að þjálfa hjá félaginu, spila með tveimur flokkum og landsliðinu, klára alla almenna þjálfaramenntun sem í boði er hjá ÍSÍ, dúxaði hún líka í Flensborgarskóla í desember 2019. Hún stundar nú krefjandi nám við HÍ samhliða því að þjálfa og spila hjá SR.

Milos, sem hefur verið lykilleikmaður í karlaliði SR undanfarin ár, byrjaði þjálfaraferil sinn fyrir einungis fimm árum þegar honum var falinn einn flokkur hjá SR og sinnti því verkefni mjög vel. Fyrir þremur árum var hann svo ráðinn yfirþjálfari allra yngri flokka SR. Síðan þá hefur starfið hjá félaginu tekið stakkaskiptum – iðkendum yngri flokka hefur fjölgað um meira en 90% og gæði þjálfunar hafa tekið miklum framförum. Hann hefur sökkt sér ofan í þjálfarstarfið af miklum eldmóð og drukkið í sig alla þá þekkingu sem hann hefur komist yfir. Hann nær frábærum tengslum við krakkana á ísnum og nær því allra besta úr þeim. Honum hefur líka verið falið starf aðalþjálfara U18 landsliðsins og aðstoðaðarþjálfara í landsliði U20 sem unnu einmitt gull í sinni deild á HM í janúar síðastliðnum. Milos er einnig frábær fyrirmynd utan íssins, drekkur ekki áfengi, er mikið snyrtimenni, sinnir reglulegri líkamsrækt og hefur mikla ástríðu og gleði fyrir því sem hann er að gera.

Til hamingju Alexandra og Milos!