Komin heim í SR

13/09/2021

Karítas Sif Halldórsdóttir byrjaði íshokkíferilinn sem sóknarmaður í SR 15 ára gömul. Hún flutti sig yfir í Björninn þar sem SR var ekki með kvennalið á þeim tíma og varði þar megninu af sínum ferli í markinu. Nú er hún aftur komin heim í SR og auk þess að spila með kvennaliðinu tekur hún virkan þátt í starfi foreldrafélagsins.

Karítas tók sér frí frá íshokkí árið 2013 vegna barneigna er hún eignaðist son sinn Nikulás Mána, sem nú æfir með U10 liði SR. Árið 2016 eignaðist hún dóttur sína Ísabel Náttsól sem enn hefur ekki fengið íshokkíbakteríuna enda bara fimm ára. Karítas kom svo aftur af fullum krafti í íshokkí í RVK, sameinað lið SR og Fjölnis tímabilið 2019-2020. Þar varði hún vel og mikið – var á endanum valin MVP, mikilvægasti leikmaður Hertz-deildarinnar það tímabil. SR og Fjölnir tefldu fram sínum eigi kvennaliðum næsta tímabil og þá ákvað Karítas að söðla um yfir í SR og um leið hætta sem markvörður.

En það furða sig margir af hverju besti markvörður landsins setur púðana á hilluna og kemur sér fyrir í sókninni – hvað varð til þess?

„Ætli það hafi ekki verið samspil ýmissa hluta í kringum íþróttina. Eitt af því var skortur á markmannsþjálfun og vitandi að ég ætti svo mikið meira inni til að verða ennþá betri. Annað var misgóðir þjálfarar. Ef þjálfarinn var góður eitt tímabil var gaman í markinu svo á því næsta annar þjálfari sem pældi sama sem ekkert í markmanninum. Þá stóð maður kaldur alla æfinguna, áhuginn dvínaði og hugsunin um að hætta fór að hreiðra um sig.“ 

„Það sem fyllti svo mælinn er hvernig menningin í kringum kvennalandsliðið hefur verið háttað. Maður fórnar miklu fyrir íþróttina en þegar farið er að berja mann niður við að gera eitthvað sem þú hefur alltaf elskað þá er þetta ekki lengur þess virði.  Það gerði bara útslagið og ég ákvað að breyta til. Það sem mér þykir verst er að sjá að það eru leikmenn sem gefa ekki lengur kost á sér í landsliðið út af hlutum sem eru bara einfaldlega ekki ræddir.“

Viltu fara nánar út í þessa menningu í kringum kvennalandsliðið – opna umræðuna um þau mál?

„Já það er auðvitað skrítið að það eru mest leikmenn utan Eyjafjarðar sem ekki eru að gefa kost á sér í landsliðið, það finnst mér ekki eðlilegt. Ef ég væri enn í marki hefði ég heldur ekki gefið kost á mér.“

Það kom mörgum sem koma að íshokkí hér á höfuðborgarsvæðinu á óvart á síðasta HM að báðir þjálfararnir og allt starfslið landsliðsins var frá Akureyri. Þar að auki var mótið í þeirra höll svo fyrir marga leikmenn af höfuðborgarsvæðinu hlýtur þetta að hafa verið eins og að vera boðflenna í partíi?

„Já ég hafði á tilfinningunni að það væri alveg búið að ákveða fyrirfram hlutverk í liðinu með leikmönnum að norðan. Þá er ekki endilega verið að nýta styrkleika liðsins að fullu og leikmenn að sunnan fengu ekki tækifæri til að blómstra. Þjálfararnir nýttu meira þá leikmenn sem þeir þekktu á kostnað leikmanna úr bænum. Það vantaði bara rautt sett af landsliðsbúningum til að fullkomna þetta.“

Nú eru jafnréttismál íþróttarinnar líka þér hugleikin, hvernig finnst þér staðan á þeim vera í dag?

„Ég er rosalega stolt að vera leikmaður SR í dag hvað varðar þau mál, því staðan í öðrum félögum að mér vitandi er ekki á sama stað. Ég veit ekki til þess að gert sé upp á milli meistaraflokka hjá SR,  þeir standa jafnir hvað varðar fjármagn og umfjallanir á alla kanta. Stelpum í yngri flokkum hjá félaginu hefur fjölgað gífurlega seinustu 3 ár með tilkomu sérstakra stelpuæfinga. Ég bíð svo spennt að sjá þessar stelpur koma upp í kvennaliðið og sjá styrkleikana sem verða í liðinu í framtíðinni,  því sú framtíð er rosalega björt!“

Fyrsti leikur tímabilsins í kvöld. Hvernig metur þú stöðu liðsins núna miðað við fyrir ári?

„Það eru ekki miklar breytingar á leikmannhópnum en þetta fyrsta tímabil hefur verið mjög lærdómsríkt og hefur liðið öðlast mikla reynslu. Það verður gaman að spila fyrsta leikinn og ekki verandi með splunkunýtt lið að byrja nánast frá byrjun. En æfingar hafa gengið vel og ég bind vonir við góðan árangur í kvöld. Við attum góðan leik í lok tímabils í fyrra og við höldum áfram á því tempói og bætum meiru við.“

Þegar þú hættir alfarið í markinu fyrir síðasta tímabil var ekkert pressað á þig að halda áfram?

„Ég fékk góðan stuðning frá liðsfélögum mínum í SR til taka skrefið í að breyta til og er þeim mjög þakklát fyrir það. Var aldrei nein pressa að halda áfram að vera í markinu ef það væri ekki eitthvað sem ég vildi.“


Á síðasta tímabili skoraðir þú tvö mörk í þessum sex leikjum sem þú spilaðir, ertu með einhver persónuleg markmið fyrir tímabilið?

„Auðvitað langar mann að bæta sig og koma með fleiri mörk og stoðsendingar. En í heildina skiptir það ekki máli hver skorar mörkin á meðan það erum við. En ég myndi segja að markmiðið væri að sjá árangur í liðinu í heild. Samspilið og liðsheildina eflast með betri árangri hjá liðinu. Það er jú liðsheildin og trú og traust á liðsfélaganum sem kemur okkur sem liði lengra“

Karítas er líklega ein fárra sem hafa spilað með landsliðinu bæði sem markvörður og útleikmaður en hún fór í fyrstu landsliðsferðina sína til Nýja-sjálands sem útileikmaður. En hver á hápunktur ferilsins?

„Ætli það sé ekki 2007-2008, þegar ég var hálft tímabil í Svíþjóð hjá Vaxjö Lakers. Ég fékk ekki neina vinnu svo ég kem heim um áramótin, korteri fyrir hrun. Ég fór með landsliðinu á HM í Rúmeníu. Þar voru liðin á mótinu mjög jöfn og barátta um hvern sigur. Við unnum á endanum gullið, ég var valin markmaður mótsins, með bestu vörsluna og endaði í viðtali hjá IIHF.“

„Þetta mót var geggjað í alla staði. Við vorum með frábæran þjálfara hana Söruh sem nýtti krafta liðsins í heild svo vel, liðið spilaði ótrúlega vel saman. Við komum okkur öllum á óvart því enginn bjóst við miklum árangri, hvað þá að fara heim með gullið. Þarna var ég í mínu besta leikformi með reynsluna frá Svíþjóð og gerði góða hluti á þessu móti.“

Karítas verður í eldlínunni í kvöld þegar Fjölnir kemur í heimsókn

Skautahöllin í Laugardal
Þrijðudagur 14. september
Kl. 19.45
1000 kr. inn
Frítt fyrir 16 ára og yngri