Setja markið hátt í kvennaliði SR

12/09/2021

Arna Björg Friðjónsdóttir og Heiður Þórey Atladóttir eru vinkonur úr Seljahverfi. Þær kynntust í götugrilli og eru búnar að vera bestu vinkonur síðan í 6. bekk í Seljaskóla. Þær spila með U16 og kvennaliði SR.

En hvernig kom til að þær byrjuðu saman í íshokkí?

Arna: „Við byrjuðum fyrir nákvæmlega tveimur árum, í september 2019. Bríet, yngri systir mín og Rökkvi frændi eru að æfa og ég og Heiður ákváðum að prófa einn tíma í Íshokkískólanum. Við stóðum varla í fæturna en okkur fannst mjög gaman og langaði að halda áfram.“
Heiður: „Við gátum ekki einu sinni haldið á kylfu, en við létum bara slag standa.“

Hvernig var að byrja 15 ára á æfingum með mun yngri krökkum í Íshokkískólanum?

Arna: „Það var mjög skrítið að vera með fimm ára krökkum og vera langelstur en það hjálpaði að við vorum tvær saman.“
Heiður: „Það breytti litlu fyrir okkur að vera elstar því við vorum á svipuðu getustigi og hinir.“

Heiður og Arna hafa á þessum tveimur árum unnið sig í gegnum aldursflokka SR hratt og örugglega. Þær fóru úr Íshokkískóla yfir á U8/10 æfingar og þaðan í U12 á fyrsta tímabilinu sínu. Síðasta tímabili voru þær í U14 og byrjuðu svo þetta tímabil í U16.

Nú hafið þið báðar náð undraverðum tökum á íþróttinni á skömmum tíma – er einhver galdur eða uppskrift?

Heiður: „Ekki alveg. En það er náttúrulega mikilvægt að mæta á æfingar til að bæta sig. Þegar við vorum búnar að æfa lengur og lengra komnar var okkur boðið að æfa með kvennaliðinu. Það var mjög gott fyrir okkur.
Arna: „Tek undir með Heiði, enginn galdur heldur bara að mæta á æfingar og hafa áhuga á íþróttinni.“

Ykkur var hent hent út í djúpu laugina í byrjun síðasta tímabils þegar kvennalið SR var endurvakið – hvernig var að lenda í þeirri sundferð?

Arna: „Blautt. Það var krefjandi en á sama tíma mikil forréttindi að vera valin í meistaraflokk svona fljótt.“
Heiður: „Sammála. Þetta er mjög góð reynsla sem er enn að gefa manni fullt.“

Hvernig var ykkur tekið þegar þið komuð fyrst inn í liðið?

Heiður: „ Allir leikmennirnir voru mjög opnir og buðu okkur velkomnar. Bæði eldri leikmenn og þjálfararnir hjálpuðu okkur að ná ótrúlegum framförum.“
Arna: „Okkur var mjög vel tekið og eldri liðsfélagar góðir í að gefa okkur ráð og hvetja áfram. Það er líka geggjað hvað aldursbilið er fjölbreytt í liðinu og þjálfararnir frábærir.“

Hvernig er tilfinningin fyrir þetta tímabil sem er um það bil að hefjast. Hlýtur að vera aðeins annað en fyrir ári?

Arna: „Já það er allt annað, liðinu hefur farið svo mikið fram síðan fyrir ári.“
Heiður: „Ég er ótrúlega spennt að fá að spila meira en á síðasta tímabili og spennt að sjá alla halda áfram að bæta sig.“
Arna: „Tilfinningin er góð og ég er mjög peppuð fyrir tímabilinu.“

Eruð þið með einver markmið í íþróttinni?

Heiður: „Ég vil endilega skora mark fyrir kvennaliðið á þessu tímabili og svo stefni ég á að komast í U18 landsliðið. Og bæta mína tækni yfir höfuð.“
Arna: „Mitt markmið er að komast í landsliðið, hjálpa liðinu mínu að ná góðum árangri og bæta mína frammistöðu.“

Nú er fyrsti leikur tímabilsins núna á þriðjudaginn, hvernig er stemmningin?

Arna og Heiður: „Stemmningin er geggjuð og við erum mjög spenntar að sjá hvernig okkur mun fara fram á þessu tímabili.“

Fyrsti leikur kvennaliðs SR í Hert-deildinni er á þriðjudaginn 14. september kl. 19.45
1000 kr. inn
Frítt fyrir 16 ára og yngri

Ársmiði á heimaleiki kvennaliðsins kostar aðeins 5000 kr. og fæst í netverslun SR.