Sölvi snýr aftur

02/09/2021

Sölvi Freyr Atlason er kominn heim eftir tveggja ára dvöl í N-Finnlandi, hjá Roki klúbbnum í Rovaniemi. Sölvi mun spila með uppeldisfélagi sínu á komandi tímabili en Herzt-deildin hefst núna á laugardaginn þegar SA sækir SR heim í Laugardalinn.

 

Þótt Sölvi sé ungur að árum, aðeins 21 árs, hefur hann heilmikla leikreynslu. Hann hefur spilað á fjórum heimsmeistaramótum með U18, sex með U20 og tveimur með A-landsliðinu. Sölvi spilaði sinn fyrsta deildarleik með Fálkum, þáverandi B-liði SR tímabiliið 2013-2014 aðeins 13 ára gamall og á því 88 leiki að baki í efstu deild.

Man Sölvi eftir fyrsta markinu sínu í deildinni hérna heima?

„Ég hef verið 13-14 ára, Húnar á móti Jötnum frá Akureyri. Fyrsti meistaraflokks leikurinn minn. Ábyggilega í miðjum fyrsta leikhluta, eitthvað sóknarspil í gangi, skot frá varnamanni, ég stóð fyrir framan markið og stýrði pekkinum inn.“

Hvernig er að vera komin aftur í SR og hvernig líst þér á liðið?

„Það er alltaf gaman að æfa og spila í Laugardalnum“. svarar Sölvi. „Liðið lítur vel út, fullt af ungum strákum sem eru alltaf að bæta sig. Liðið er búið að vera æfa vel saman og mjög góður liðsandi. Þannig maður er spenntur fyrir tímabilinu. “

Hvernig líst þér á Herzt-deildina í ár?

„Tilfinningin er að öll liðin ættu að vera sterk í ár og tímabilið er stutt þannig það er mikilvægt að mæta af krafti í alla leiki.“ svarar Sölvi.

Eins og áður kom fram spilaði Sölvi með U20 liði Roki, 30 leiki fyrra tímabilið og 21 leik seinna tímabilið. En hvernig var dvölin í Finnlandi þessi tvö tímabil?

„Dvölin var frábær, ískalt en nánast alltaf logn þannig veturnir voru mjög fallegir.“

Litaðist dvölin þar eitthvað af Covid?

„Það var svosem ekki mikið covid í Rovaniemi, liðin voru reglulega sent í Covid-próf og það kom aldrei upp smit í U20 liðinu. Fólk fór almennt eftir tilmælum og passaði sig.“

Hvað tókstu helst með þér í veganesti frá Finnlandi?

„Ætli það sé ekki reynslan. Maður var að spila hraðara og harðara hokkí þarna úti þannig það ætti að hjálpa mér eitthvað hérna í deildinni heima í vetur“. segir Sölvi.

Ertu með einhver markmið fyrir tímabilið, persónuleg eða liðs-markmið?

„Ég reyni alltaf að setja mér markmið fyrir hverja æfingu og hvern leik, 2-3 hluti sem ég ætla að einblína á“ segir Sölvi að lokum.

 

Það er frábært að fá þennan leikna leikmann aftur heim enda mun hann styrkja liðið gífurlega í átökum vetrarsins.

Fyrsti leikur tímabilsins er næsta laugardag í Skautahöllinni í Laugardal kl. 17.45 gegn SA.

1000 kr. inn

Frítt fyrir 16 ára og yngri