Andrea og Bjarki íshokkífólk SR 2021

03/01/2022

Stjórn SR íshokkí valdi Andreu Diljá og Bjarka Rey íshokkífólk SR árið 2021.

Andrea hefur staðið í ströngu á milli stanganna síðustu tvö tímabil þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur varið að meðaltali um 50 skot í leik og er samt með frábært hlutfall varðra skota, eða 85%. Andrea fór með A-landsliðinu til Englands og spilaði í undankeppni Ólympíuleikanna aðeins 15 ára gömul. Þar spreytti hún sig gegn sterkasta andstæðingi sem landsliðið hefur spilað gegn og stóð sig mjög vel. Andrea var einnig valin í U18 landsliðið sem átti að fara til Tyrklands núna í janúar

Andrea er uppalin hjá SR og einn af merkisberum öflugs barna- og unglingastarfs félagsins. Hún er ávallt jákvæð, hvetjandi og tilbúin að aðstoða alla. Andrea er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og gefst aldrei upp þótt á móti blási.

Bjarki er hefur verið í eldlínunni í liði SR undanfarin ár og hefur getið sér gott orð fyrir dugnað og eljusemi. Hann er SR-ingur í húð og hár og missir sjaldan leikjum enda næstleikjahæsti SR-ingurinn með 165 leiki í efstu deild þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára gamall. Bjarki hefur spilað með U18 og U20 landsliðum og verið bæði fyrirliði og aðstoðarfyrirliði. Siðustu sjö tímabil hefur hann átt fast sæti í A-landsliði Íslands.

Spilamennska Bjarka einkennist af miklum dugnaði og þeim miklu kröfum sem hann gerir til sjálfs sín. Hann er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og gefst aldrei upp þótt móti blási.
Bjarki var einnig valinn íshokkímaður ársins hjá Íshokkísambandi Íslands.

Við óskum þeim báðum innilega til hamingju með árangurinn!