Björn Róbert snýr til baka með stæl (viðtal)

21/04/2022

Björn Róbert Sigurðarson sneri aftur í íshokkí í vetur eftir nokkura ára hlé þegar hann kom aftur heim í uppeldisfélagið SR. Hann náði fjórum deildarleikjum og einum leik í úrslitum og hefur svo farið á kostum í fyrstu tveimur leikjum landsliðsins á mótinu. Við tókum Björn tali fyrir tvo lokaleiki mótsins hjá íslenska liðinu föstudag og laugardag.

Þú stimplaðir þig rækilega aftur inn í landsliðið með fjögurra stiga leik gegn Búlgörum og svo aftur með tvö mörk í gegn Georgíu þar sem þú varst valinn maður leiksins úr liði Íslands. Þú ert líka stigahæsti maður mótsins þegar þetta er ritað.

Þetta hlýtur að vera góð tilfinning?

„Já svo sannarlega góð tilfinning – það er alltaf gaman þegar að það gengur vel. Maður er að spila hérna með virkilega góðum leikmönnum, þannig að það að það gerir þetta auðveldara fyrir vikið.“

Þessi leikur gegn Georgíu var rosalegur baráttuleikur, mikið um refsimínútur á báða bóga, þó sérstaklega Georgíu. Heldur þú að þetta hafi verið taktík hjá þeim til að slá ykkur út af laginu eða létu þeir gang leiksins fara í taugarnar á sér?

„Já, þetta var mjög skemmtilegur leikur og baráttan mikil á milli liðanna. Við vorum óþarfa mikið í boxinu og það er spurning hvort að sumir þessir dómar sem við fengum á okkur hafi ekki verið nokkuð ódýrir.

Hvort spilamennskan hjá þeim hafi verið taktík eða ekki, er ég ekki alveg viss um. Þeir mættu af fullum krafti og virkuðu á mig sem frekar blóðheitir einstaklingar.

Ég er allavega nokkuð viss um að gangur leiksins hafi ekki verið að hjálpa þeim og að þeirra leikur einkennist af mikilli hörku og baráttu.“

Nú virðist Ísland í dauðafæri á að komast aftur upp í deild 2A eftir nokkur heimsmeistaramót í 2B, tveir leikir eftir fyrst á móti Mexíkó og síðan Belgíu. Hvernig líst þér á þessa tvo leiki?

„Mér líst bara mjög vel á þetta en þetta verða ekki auðveldir leikir. Bæði lið eru með góða leikmenn og verðum við því að mæta einbeittir og klárir í að spila okkar leik.

Stemmningin í hópnum er góð og markmiðið hjá okkur er skýrt, en það er auðvitað að vinna báða þessa leiki og koma okkur upp um deild.“

Þú meiddist Georgíuleiknum og búinn að vera í meðferð hjá Manny sjúkraþjálfara – verður þú orðin góður fyrir lokasprettinn um helgina?

„Já ég er eitthvað tæpur í olnboganum en við leikmennirnir erum í góðum höndum hjá Manny og setjum við að sjálfsögðu stefnuna á að ég verði klár í lokasprettinn.“

Eitthvað að lokum?

„Vonandi sjáum við sem flesta í stúkunni og áfram Ísland!“

Ísland leikur við Mexíkó kl. 20 í kvöld föstudag og svo við Belga kl. 20 annað kvöld, laugardag. Við hvetjum alla til að mæta í Skautahöllina og styðja við bakið á landsliðinu.