Viðtal við Jóhann Björgvin markvörð

21/04/2022

Nú þegar HM í Laugardalnum er hálfnað tókum við SR-inginn Jóhann Björgvin tali en hann hefur alið manninn í Tékklandi í vetur með U20 liði Vlasim. Þetta er hans fyrsta HM með A-landsliði karla og hans fyrsti leikur gegn Georgíu í gær. Hann hoppaði beint í annað sæti yfir bestu markmann mótsins eftir frammistöðuna í gær þrátt fyrir ungan aldur.

Þú áttir stórleik í gær gegn Georgíu, sást til þess að þeir komust aldrei inn í leikinn þrátt fyrir að vera oft manni yfir. Getur þú sagt mér aðeins frá leiknum frá sjónarhorni markmanns?

Já ég átti góðan leik og er sáttur með mína frammistöðu. Við byrjuðum leikinn mjög vel, við vissum að þeir væru mjög stórir og sterkir og að þeir myndu koma af fullum krafti inn í leikinn. Við vissum líka að við þyrftum að mæta með meiri kraft en þeir frá fyrstu sekúndu og gerðum það.

Leikurinn heilt yfir spilaðist mjög vel að mínu mati, við vorum með yfirhöndina allan tímann, létum þá spila okkar leik og vorum ekki að elta þá. Aðal hótunin frá þeim var þegar við fengum brottvísun og þeir spiluðu á yfirtölu, við vissum að það er styrkleiki þeirra en við leystum úr því mjög vel að mínu mati.

Strákarnir voru mjög duglegir að halda þeim fyrir utan og blokka skot sem auðveldar vinnuna mína og ég tók þau skot sem ég á að taka þannig það gekk vel. Ég vissi fyrir leik að þeir myndu skjóta við öll tækifæri og sækja fráköstin þannig minn fókus var að gefa þeim enginn fráköst og ég tel það hafa heppnast mjög vel.

Heilt yfir er ég mjög sáttur við mína frammistöðu og alls liðsins.

Nú er mótið hálfnað og tveir sigrar í hús, hvernig líst þér á seinni tvo leikina? Á blaði er Mexíkó veikasta liðið. Leikurinn við Belga á laugardag gæti ráðið úrslitum í riðlinum.

Já við erum á mjög góðum stað eins og er með fullt hús stiga, Mexíkó er næsti leikur og það er rétt að þeir séu veikastir á blaði en við megum ekki vanmeta þá, þeir eru mjög hraðir og dæla pekkjum á markið þannig við verðum að vera tilbúnir.

Belgarnir eru mjög sterkir og það verður mjög erfiður leikur en ég hef fulla trú á liðinu okkar. Að við getum klárað þessa leiki og þetta mót og náð gullinu ef við spilum eins og við höfum gert hingað til.

Þitt fyrsta heimsmeistaramót með A-landsliðinu. Hver er munurinn á milli yngri landsliða og þessa?

Það er mikill munur á leiknum, hann er mun hraðari, betri skot og meiri geta. Ég finn lika mikin mun á að vera í þessum hóp en í yngri landsliðunum utan sem innan vallarins.

Það er rosalegur heiður að vera valinn í hvaða landslið sem er, en þá sérstaklega i karlalandsliðið. Að fá að spila og læra af eldri leikmönnunum og að fá að spila fyrir hönd karlalandsliðsins – sérstaklega núna á heimavelli.

Þú varst með HC Vlasim í Tékklandi í vetur en ert að færa þig um set fyrir næsta tímabil. Hvert ertu að fara og getur þú sagt mér aðeins frá hvað þessi flutningur þýðir fyrir þig og þinn feril?

Já veturinn hjá Vlasim var mjög góður bæði með U20 í 3. deild og karlaliðinu í 4. deild.

Ég bætti mig mjög mikið og fékk hellings reynslu. Ég tók ákvörðun að fara þaðan og taka skref uppávið og er núna að færa mig yfir í SC Kolín í 1. deild í Tékklandi.

Ástæðan fyrir því er að Kolin er mun stærri klúbbur í betri deild. Ég mun æfa og spila með U20 liðinu þeirra og vonandi æfa eitthvað með meistaraflokknum til að byrja með.

Þetta er stórt skref áfram fyrir mig og ég er mjög spenntur fyrir þessu liði og tækifærunum sem eru þar.

Næsti leikur á HM er gegn Mexíkó, föstudagskvöld kl. 20.00.