Gunnlaugur Thoroddsen stýrir karlaliði SR á sínu öðru tímabili hjá SR en tímabilið 2020-2021 var hann aðstoðarþjálfari liðsins.
Hann er reynslumikill þjálfari, gerði SR að deildarmeisturum 2015 og Esju að deildar- og Íslandsmeisturum 2017. SR spilaði til úrslita á síðasta tímabili og byrjaði þetta af miklum krafti.
Hvað getur þú sagt okkur um þetta eina og hálfa tímabil síðan þú tókst við liðinu?
Gunnlaugur: „Búið að vera mjög erfiðir tímar og er ekki kominn á þann stað í dag sem ég ætlaðist til að við værum komnir á. Þetta er búið að vera krefjandi en mjög skemmtilegt.“
Björn Róbert Sigurðarson kom inn í þjálfarateymið í byrjun núverandi tímabils en hann er einn sterkasti leikmaður sem Ísland hefur alið af sér. Hann spilaði með Malmö Redhawks í Svíþjóð, Hvidovre í Danmörku, Aberdeen Wings NAHL deildinni í USA, Ketterä í Finnlandi, Esju og kom svo aftur í SR á síðasta tímabili.
Hvernig er að vera hinu megin við borðið og þjálfa leikmenn?
Björn: „Skemmtilegra en ég bjóst við. Upplifunin er allt önnur en engu að síður er mjög gaman að vera partur af liðinu á öðrum forsendum en maður er vanur. Við erum með ákveðnar áherslur og erum alltaf að reyna bæta okkur sem lið. Það er búið að vera flott að sjá það þróast eftir því sem líður á tímabilið.“
Nú hafið þið verið lengi viðloðandi íshokkí, hvað hefur breyst á þessum tíma – til hins betra eða verra?
Björn: „Manni finnst þetta að einhverju leyti standa í stað og fær tilfinninguna á því að menn séu bara sáttir með hvernig þetta er. Deildin er misgóð eftir árum og það er ekki að eiga sér stað sú þróun í íslensku íshokkí sem maður hefði viljað sjá. Ef maður á að draga fram eitthvað jákvætt má kannski nefna þátttöku íslenskra liða í IIHF continental cup.“
Hvað getið þið sagt um leikmannahópinn í ár?
Gunnlaugur: „Hópurinn er góður en það þarf að pússa hann betur saman og það tekur tíma.“
SR hefur á að skipa góðri blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum og reynsluboltum – en hvernig er jafnvægið milli eldri og yngri leikmanna?
Gunnlaugur: „Munurinn á eldri og yngri tæknilega séð er minni heldur áður hefur verið.“
Það eru nokkur ný andlit í hópnum í ár ekki satt?
Gunnlagur: „Við erum með leikmenn sem eru að koma til baka eftir mislöng hlé og þeir þurfa sinn tíma til að koma sér i gang. Ævar og Heiðar koma beint frá SA, tilbúinn pakki þaðan og bæta þeir hressilega í kjarnann. En ég er gríðarlega þakklátur fyrir þessa nýju menn.“
Nú er SR eina liðið án erlendra leikmanna ekki satt?
„Jú en við erum með leikmenn úr öðrum liðum“ svarar Gunnlaugur og brosir en fyrir þetta tímabil gengu áðurnefndir Ævar Arngrímsson og Heiðar Kristveigarson til liðs við SR frá SA en Axel Orongan kom til SR fyrir síðasta tímabil. Frá Fjölni komu Atli Snær Valdimarsson markvörður, Steindór Ingason, Birkir Árnason og Ólafur Björnsson.
Nú eru áberandi margir eldri leikmenn sem eru snúnir aftur sem spiluðu með Esjunni. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?
Björn: „Það má vera að leikmenn séu líklegri til að snúa til baka þegar þeir sjá sína gömlu liðsfélaga aftur á ísnum. Við vorum samheldinn og þéttur liðshópur í Esju. Ætli þetta hafi ekki smitandi áhrif.“
Meðal gamalla Esjumanna í liðinu má nefna Björn sjálfan, Pétur Maack, Egil Þormóðsson, Daníel Frey markvörð, Þórhall Viðarsson, Steindór Ingason og Ólaf Björnsson.
Nú er þetta tímabil hálfnað, við erum í öðru sæti með 14 stig, fjórum á eftir SA og 10 á undan Fjölni. Hvernig hefur ykkur fundist þetta tímabil vera og hvernig sjáið þið það þróast?
Björn: „Spilamennskan hjá okkur hefur verið nokkuð kaflaskipt. Við byrjuðum tímabilið vel og svo kom smá kafli þar sem við duttum niður. Meiðsli hafa líka sett strik í reikninginn hjá okkur en stefnan er sett upp á við héðan af. Liðið er ekki ennþá fullmótað og því verður áhugavert að sjá hvernig þetta þróast.“
SR mætir SA í tveimur leikjum í Laugardalnum um helgina, föstudag kl. 19.45 og laugardag kl. 17.15. Við hvetjum alla til að skella sér í höllina og hvetja SR strákana áfram.