Landsliðskona frá Kasakstan til SR

02/04/2023

Malika Aldabergenova, öflugur framherji frá Kasakstan, ætlar að ganga til liðs við kvennalið SR fyrir næsta tímabil.

Malika, 24 ára, er aðstoðarfyrirliði í kvennalandsliði Kasakstan. Liðið er í 21. sæti heimslistans og spilar í B-riðli fyrstu deildar í Kóreu núna í apríl, deild fyrir ofan íslenska kvennalandsliðið. Þar etja þær kappi við aðrar stórþjóðir í íshokkí á borð við Pólland, Ítalíu, S-Kóreu, Bretland og Slóveníu.

Malika hefur spilað fyrir landsliðið síðan hún var 16 ára gömul og með félagsliði sínu Aisulu Almaty bæði í heimalandinu og evrópsku kvennadeildinni (EWHL). Hún fór í skóla fyrir efnilegt íþróttafólk og útskrifaðist svo með háskólagráðu frá Kazakh Academy of Tourism and Sports.

Malika er mikill hvalreki fyrir íslenskt íshokki og mun styrkja SR gífurlega enda hokin af reynslu þótt hún sé enn ung að árum. Hún lýsir sjálfri sér sem glaðlyndum og skemmtilegum karakter með skýr markmið.

Við tókum Maliku tali er hún var stödd í Ungverjalandi í úrslitum EWHL með áðurnefndu félagsliði sínu Aisulu frá Almaty borg í lok mars.

Getur þú sagt okkur aðeins frá sjálfri þér og þínum bakgrunni?

„Ég er fædd og uppalin í borginni Almaty í
Kasakstan sem er 2 milljóna borg í suðurhluta landsins, rétt við landamæri Kyrgisthan og Kína. Ég kem frá lítilli fjölskyldu, á mömmu, pabba og einn bróður. Ég byrjaði að æfa íshokkí þegar ég var 5 ára og hef æft allar götur síðan. Pabbi minn, sem er mikill áhugamaður um íþróttina og er eiginlega heltekinn af henni, vildi að börnin sín myndu æfa íshokkí. Svo við höfum öll spilað hokkí nema mamma en pabbi minn og bróðir spila enn áhugamannahokkí.

Það æxlaðist þannig til að ég náði að komast í atvinnumannalið og hóf minn íþróttaferil. Þannig að ég er svolítið talin stolt fjölskyldunnar 🙂 Ég elska íshokkí og er mjög stolt af þeim árangri sem ég hef náð.“

Í vetur hefur þú dvalið í Kanada, getur þú sagt mér hvað þú varst að gera þar?

„Ég flutti til Kanada síðasta haust  til að prófa eitthvað nýtt og jafnvel hefja nýtt líf þar. En ég gat ekki verið lengi án íshokkís svo vinkona mín stakk upp á að ég myndi spila með liði hennar, Ice Cats, í Ottawa. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og hafði samband við þjálfarann. Það var vel tekið á móti mér en ég gat bara spilað þar hálft tímabil. Þetta var samt ný og skemmtileg upplifun fyrir mig.“

Nú ertu komin aftur heim frá Kanada og ert að spila með Aisulu í úrslitum Evrópsku kvennadeildarinnar. Getur þú sagt okkur aðeins frá því?

„Í fyrsta lagi er alltaf gaman að ferðast til Evrópu. En það er auðvitað frábær reynsla og ótrúlega skemmtilegt að spila í Evrópudeildinni, sérstaklega gegn sterkum liðum frá Austurríki og Ungverjalandi. Það er nýtt mót á hverju ári og árangurinn misjafn en við stefnum alltaf á að ná langt í þessari keppni. Á síðasta tímabili náðum við öðru sæti og ég var valin besti leikmaður okkar liðs“.

Aisulu spilaði í undanúrslitum gegn Budapest Hokki Klub en tapaði 2-1 og spiluðu þær því um þriðja sætið gegn SKP frá Slóvakíu. Þar tapaði Aisulu 4-3 og endaði liðið því í fjórða sæti Evrópsku kvennadeildarinnar, frábær árangur. 

Framundan hjá þér er svo HM kvenna í Kóreu núna í apríl með landsliði Kasakstan. Er mikil tilhlökkum fyrir því móti?

„Að sjálfsögðu. Okkar markmið verður að vinna gull. Við setjum markið hátt“

Já, hvernig metið þið möguleika ykkar á að ná gullinu?

„Ég tel okkar hafa alla burði til að sigra mótið og komast upp um deild (í A riðil fyrstu deildar).“

Hvað með þig, einhver persónuleg markmið fyrir mótið? Á því síðasta varstu stigahæsti leikmaður liðsins.

„Að vera valin leikmaður mótsins en einnig að vera stigahæst og leiða liðið til sigurs 🙂 “

En þá er það stóra spurningin, af hverju er svona sterkur leikmaður að koma til örþjóðar í Norður-Atlantshafi til að spila fyrir mjög ungt kvennalið?
„Mér fannst þetta frábær áskorun fyrir mig þar sem ég mun ekki einungis upplifa eitthvað nýtt heldur líka þroskast sem manneskja og skapa góðar minningar. Það skemmir heldur ekki fyrir að ég elska að ferðast og Ísland er einn af þeim stöðum sem mig hefur alltaf langað til að heimsækja. Við lifum jú aðeins einu sinni og þurfum að fá sem mest út úr lífinu“

Einhver lokaorð?

„Já ég ég myndi vilja koma á framfæri hvað ég er þakklát fyrir að hafa verið boðið þetta tækifæri til að spila á Íslandi og máta mig inn í nýjum aðstæðum. Ég hlakka mikið til að koma til Íslands!“

Það verður frábært að fá þennan sterka leikmann í íslenskt kvennahokkí og hlökkum við í SR mikið til að sjá hana á ísnum næsta vetur. Það er spennandi tímabil framundan hjá SR með svona sleggju innanborðs í bland við okkar frábæra hóp sem fyrir er.