Í hjarta Laugardalsins bakvið gróðursæld lúrir Skautahöllin í Laugardal sem byggð var árið 1998 en tæpum áratug áður hafði vélfryst svell verið komið þar á laggirnar. Innandyra getur almenningar komið og skautað sér til skemmtunar yfir vetrartímann. Færri vita að þar er líka öflug íþróttastarfsemi Skautafélags Reykjavíkur sem nýlega hélt upp á 130 ára afmæli, eitt elsta íþróttafélag landsins þótt víðar væri leitað.
Skautafélagið, alla jafnan kallað SR, býður upp á æfingar í bæði íshokkí og listskautum. Flestir krakkar sem leggja skautaíþróttir fyrir sig velja aðra hvora íþróttina en ekki allir því Kristína Ngoc 14 ára og Dagný Mist Teitsdóttir 15 ára æfa bæði íshokkí og listskauta.
Hvað var til þess að þið fóruð að æfa listskauta?
Dagný: „Ég fór í fyrsta sinn að skauta í afmæli hjá vinkonu minni og varð bara ástfanginn af skautum og byrjaði strax að æfa.“
Kristína: „Mig langaði alltaf að æfa listskauta og byrjaði að mæta með frænku mína fyrir þremur árum.“
Fyrir algjöra tilviljun byrjuðu þær báðar að æfa listskauta sama daginn, kynntust þar og urðu mjög góðar vinkonur. En hvernig datt ykkur í hug að fara að æfa íshokkí líka?
Dagný: „Stjúppabbi minn kynnti mér fyrir NHL (N-ameríska íshokkídeildinni) og þá hafði ég enga hugmynd að það væri íshokkí í Laugardalnum. Svo sá ég á Instagram að það væri hægt að koma og prófa, mætti nokkrum sinum og fannst það ótrúlega gaman.“
Dagný dró síðan Kristínu vinkonu sína með sér á íshokkífæfingar. En hver er helsti munurinn á milli íþróttanna fyrir utan það augljósa eins og að önnur er einstaklings og hin hópíþrótt?
Kristína: „Ég myndi segja að listskautar taka meira tíma, að ná öllum grunnprófunum og nælunum.“
Dagný: „Íshokkí tekur miklu meira á líkamann en listskautar taka meira á hugann fyrir mér. Það er gaman að geta skipst á að vera í hópíþrótt og einstaklings. Að vissu leyti er hokkí líka einstaklings, maður er alltaf að reyna bæta sig fyrir liðið.“
Kristína og Dagný eiga nánast heima í Skautahöllinni nú þegar þær æfa báðar íþróttirnar en nýtist tæknin milli íþrótta eða er þetta of ólíkt?
Dagný: „Hokkí er 100% búið að bæta þolið mitt og hefur gefið mér mikinn metnað til að verða betri í báðum íþróttum.“
Kristína: „Listskautatæknin hjálpaði mér mjög mikið í hokki. Ég hef líka heyrt af fleirum sem æfðu listskauta fyrst en fóru síðan í hokkí.“
Nú eru skautarnir ekki eins í listskautum og hokkí, getið þið sagt aðeins frá muninum og hvernig er að skipta á milli?
Dagný: „Fyrst var ómögulegt að skauta í hokkí skautunum, datt alltaf fram fyrir mig því ég var óvön að hafa ekki gaddana sem eru á listskautunum. Það hefur orðið erfiðara fyrir mig að bremsa á listskautum síðan ég byrjaði í hokkí annars er ekki svo mikill munur fyrir mér.“
Kristína: „Það var smá erfitt að venjast hokkí skautunum fyrst. Stundum þegar ég er búin að vera á nokkrum hokki æfingum og fer yfir á listskautaæfingar þá gleymi ég stundum og fer á tánna – það gerist frekar oft líka öfugt.
Nú er aðeins meiri búnaður í íshokkí heldur en listskautunum, getið þið sagt aðeins frá því?
Kristína: „Það tekur svo miklu styttri tíma að fara í listskautana, bara 2 mín á meðan í hokki gallan tekur það mig 5-10 mínútur og það er léttari að reima listskauta.“
Dagný: „Það tók alltaf svo langan tíma fyrir mig að klæða mig í allan hokkí búnaðinn, en núna er ég miklu fljótari. Það er aðeins léttara að ferðast með listskauta.“
Þið fóruð með U18 íshokkílandsliði stúlkna til Póllands á fjögurra þjóða mót í fyrra og til Búlgaríu á heimsmeistaramót stúlkna í annarri deild B riðils og fenguð þar brons. Það hlýtur að hafa verið upplifun?
Dagný: „Já það var svo ótrúlega skemmtileg upplifun, lærði svo mikið og það var rosalega gaman að vera með öllum og að ferðast. Ég bíð mjög spennt eftir framtíðarferðum með U18.“
Kristína: „Ég var í sjokki þegar ég frétti að við myndum fara út með landsliðinu. Það hefur einhver veginn alltaf verið draumur að ferðast með vinkonum mínum. Og að geta spilað uppáhalds íþróttina þína í öðru landi er enn betra.“
Mynduð þið mæla með að æfa skautaíþróttir?
Kristína: „Já vegna þess að það er auðvitað svo gaman í hokkinu með vinum og síðan er svo geggjuð tilfinning að læra og ná tökum á nýjum hlutum á listskautum.“
Dagný: Já það er svo skemmtilegt að kunna að skauta því þetta er ekki svo þekkt íþrótt á Íslandi. Mjög sammála Kristínu, fátt skemmtilegra en að loksins ná einhverju sem þú ert búin að æfa lengi á skautum.“
Viðtal birtist upphaflega í Hverfisblaði Laugardals.