Kári og Alexandra íshokkífólk SR 2023

02/01/2024

Kári Arnarsson og Alexandra Hafsteinsdóttir eru íshokkífólk SR árið 2023

Alexandra er fyrirliði kvennaliðsins og hefur síðustu ár verið leiðtogi liðsins bæði innan og utan íssins ásamt því að vera einn sterkasti leikmaður þess. Hún hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu stúlknahokkís hjá SR með frábærum árangri og hjálpað til að búa til heila kynslóð af ungum leikmönnum sem núna eru að ryðja sér til rúms í liðinu. Sá hópur undir hennar stjórn hefur unnið þrjú síðustu U16 mót stúlkna.

Kári er fyrirliði karlaliðsins og hefur undanfarin ár verið einn sterkasti leikmaður liðsins og stillt sér efst á lista yfir stigahæstu leikmenn í Hertz-deildinni. Hann er m.a. stigahæsti Íslendingurinn núna og var stigahæstur SR-inga tímabilið 2021-2022. Kári leiddi liðið til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins í 14 ár með frábærri frammistöðu að öðrum ólöstuðum.

Bæði eru Kári og Alexandra frábærar fyrirmyndir fyrir yngri og eldri SR-inga og vel að þessum titlum komin. Þau eru bæði ung að árum og eiga langan og farsælan feril framundan.

Við óskum þeim innilega til hamingju með titilinn.