Ríkjandi Íslandsmeistarar í SR eru mættir til leiks með mjög breyttan hóp frá því í vor er liðið lagði SA að velli í úrslitum og tryggði sér annan titilinn í röð. Hópurinn er ungur og efnilegur með reynslu í bland og er nú mættur til Narva í Eistlandi til þátttöku í Continental Cup. Við tókum fyrirliðateymið, Kára Arnarsson, Sölva Atlason og Axel Orongan tali.
Liðið er ríkjandi Íslandsmeistari og byrjar tímabilið með sigri í fyrsta leik þrátt fyrir mjög breyttan hóp frá því í fyrra. Hvernig leggst tímabilið í ykkur og mannskapurinn sem nú skipar liðið?
Kári „Við misstum marga lykilleikmenn i sumar og margir farnir i SFH en það er spennandi og nauðsynlegt fyrir deildina að fá fjórða liðið inn þannig að ungu strákarnir þurfa að stíga upp og fylla upp i fótspor reyndari leikmanna. En ég hef trú á þeim og hef trú á liðinu!“
Axel „Þetta er mun yngra lið sem þýðir kannski að það sé aðeins reynsluminna en á sama tíma setjum við háan standard á liðið þannig allir þurfa að stíga upp og fylla í þau role sem þeir fá. Mér líst mjög vel á hópinn í ár og er viss um að nýju leikmennirnir muna gera sitt allra besta fyrir klúbbinn.“
Sölvi: Við erum búnir að vera vinna í „næsti maður inn” mentality síðustu tímabil. Nú fá yngri leikmenn gott tækifæri til þess að stíga upp og sýna sig. Þeir fá stærra hlutverk í liðinu sem er frábært fyrir þá og framtíð SR.“
Erlendu leikmennirnir sneru ekki aftur, nokkrir létu gott heita, einn flutti erlendis og svo fóru einmitt nokkuð margir yfir til nýs félags. En í staðinn eru komnir nokkrir nýir, Hákon og Alex Máni komnir heim eftir nokkuð langa dvöl í Svíþjóð, varnarmaðurinn öflugi Eddie frá Slóvakíu og svo tveir ungir erlendir leikmenn Lukas frá Slóvaíku og Lukas frá Tékklandi. Þannig að hópurinn ætti að vera nokkuð sprækur þrátt fyrir allar þessar breytingar?
Sölvi „Já já við misstum nokkra öfluga leikmenn en aftur á móti fáum við mjög sterka stráka inn í hópinn. Núna verðum við bara vera duglegir að æfa föstu leikatriðin svo allir séu á sömu blaðsíðu. Síðan tökum við þetta bara leik fyrir leik og reynum alltaf að bæta okkur og þétta hópinn.“
„Innkoma SFH gerir deildina þéttari þannig það verður ekkert gefins í vetur. Við erum með ungan og öflugan hóp, það er góður grunnur sem síðan er hægt að byggja á, það er undir okkur komið hversu sterkt liðið verður.“
Kári „Já tek undir það þetta. Við erum með ungt lið og kannski ekki jafn mikla reynslu og í fyrra en þessi hópur mætir á allar æfingar og mun ekki tínast úr hópnum þegar líður á tímabilið og álagið verður meira. Ég sé strax bætingar á ungu strakunum frá fyrstu æfingu og núna og erum bara búnir að spila einn leik þannig það verður spennandi að sjá hvernig við lítum út i lok tímabils.“
Axel „Þetta er mjög sprækur hópur. Allir eru með metnaðinn sem við þurfum til að ná langt sem lið. Yngstu strákarnir klifruðu vel inni þetta og verða bara betri með hverri æfingu og ég er viss um að erlendu leikmennirnir geri slíkt það sama og eins og Kári sagði það verður spennandi að sjá progressið hjá okkur inní tímabilið!“
Hvernig líst ykkur á Continental Cup um helgina, borgina, hin liðin og við hverjum megum við búast?
Axel „Þetta leggst mjög vel í mig, og held ég alla yfir höfuð. Já Narva ég veit ekki við hverju ég á að búast, hef ekki heyrt mikið af góðum hlutum um þessa borg en það svo sem skiptir ekki máli þar sem við erum komnir til að spila íshokkí og reyna okkur besta að vinna leiki.“
„Ég veit ekki mikið um liðin en ég á nokkra félaga í litháenska liðinu og þeir eru mjög sprækir og góðir leikmenn þannig ég býst við alvöru leikjum á þessu móti, sem er lang skemmtilegast að spila!“
Sölvi „Það er alltaf skemmtilegt að fá að spreyta sig við önnur lið heldur en þessi tvö (núna þrjú) lið heima. Öll liðin á mótinu eru sterk þannig þetta verður erfiðis vinna en það er bara fjör.“
Ég veit ekki meira um Narva en að það er við landamæri Rússlands. Það verður áhugavert að sjá stemninguna þarna en þetta er auðvitað fyrst og fremst keppnisferð, gætum verið að fara til Búrkinafasó en viðhorfið væri alltaf eins.
Þetta verður góð reynsla í bankann fyrir liðið.“
Kári „Mér líst bara vel á staðinn sem við erum á. Sýnist þetta vera hokkíbær og er mjög spenntur fyrir þessum leikjum og þessari reynslu!“

Milos með liðin á æfingu í Skautahöllinni Í Narva í kvöld.
Fyrsti leikur liðsins er á morgun föstudag kl. 12 að íslenskum tíma gegn litháenska liðinu Energija Elektrenai.
Á laugardaginn mætir SR heimamönnum í Narva PSK kl. 14.00 að íslenskum tíma.
Lokaleikur liðsins er svo gegn spænsku meisturunum í CH Jaca kl. 10 á sunnudag að íslenskum tíma.