Fyrirliðaspjall | SR kvenna á Íslandi og Ítalíu

13/09/2024

Kvennalið SR er nú á sínu fimmta tímabili. Eftir mikla baráttu og ótrúlega þrautseigju í nokkur ár fór þolinmæðin loksins að bera árangur á síðasta tímabili. Liðið fór þá að veita Fjölni og SA alvöru samkeppni í leikjum og sótti sína fyrstu sigra. Nú er fyrsti leikur nýs tímabils að baki og fjögurra liða mót ítölsku ölpunum framundan. Við tókum púlsinn á fyrirliðateyminu, Alexöndru, Sögu Blöndal og Bríeti Maríu.

Það eru heilmiklar breytingar á hópnum fyrir tímabilið, fjórir nýir leikmenn Gunnborg Petra, Inga Rakel, María Sól og Ragnhildur. Hverju breytir þetta fyrir liðið á komandi tímabil?

Saga: „Þetta breytir miklu fyrir okkur, allar hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum og flestar einnig spilað erlendis sem er mikil hvatning fyrir alla í liðinu að komast á hærra level. Styrkir liðið og stækkar og gefur okkur tækifæri til að láta betur að okkur kveða í deildinni.“

Alexandra: „Það var þvílík gæfa fyrir okkur að fá þessa nýju leikmenn inn í liðið, ekki nóg með það að þær eru allar gríðarlega öflugir og reynslumiklir leikmenn, heldur eru þær allar frábærir liðsfélagar sem passa vel inn í hópinn. Þetta ýtir mjög undir jákvæða samkeppni innan liðsins og hvetur okkur allar til að leggja okkur meira fram og komast á hærra level, bæði sem einstaklingar og sem lið. Þegar við erum búnar að æfa saman í smá tíma og samstilla okkur vel munum við koma öflugar inn í deildina og stimpla okkur þar inn.“

Bríet: „Það er mikill styrkur fyrir liðið að fá þessa nýju leikmenn. Það gefur okkur meiri breidd og sveigjanleika. Svo er líka alveg frábært að fá alla þekkinguna og reynsluna inn í hópinn. Þannig að í heildina mjög jákvæð viðbót.“

Hvernig hefur þetta verið fyrir þig Bríet? Þú varst enn í U14 þegar liðið var endurvakið og þér hent út í djúpu fyrir fjórum árum – hefur þroskast og þróast með liðinu, nú orðin aðstoðar fyrirliði aðeins 16 ára.

Bríet: „Þetta var mjög stressandi tímabil fyrir foreldra mína meira en fyrir mig. Þetta hefur klárlega þroskað mig og byggt mig upp sem leikmanninn sem ég er í dag.“

Það styttist í Dolomite Trophy sem fer fram núna um helgina. Þar mætið þið þremur ítölskum liðum, Icebears Trentino og Zoldo. Hvernig líst ykkur á mótið og hafið þið kynnt ykkur eitthvað andstæðingana?

Bríet: „Þetta er mjög spennandi. Ég skoðaði liðin aðeins og leist vel á. Ég sá að það voru nokkrir yngri leikmenn eins og hjá okkur. Því erum við að búast við jöfnum og spennandi leikjum.“

Saga: „Þetta er bara ótrúlega spennandi og skemmtilegt verkefni, gaman að breyta til og spila á móti öðrum en íslenskum liðum. Ég sjálf hef ekkert kynnt mér andstæðingana og ætla bara að leyfa þessu öllu að koma mér á óvart. Ég hef spilað á svipuðum slóðum áður og ég reikna með að þetta séu frekar sterk lið, allavega miðað við mína reynslu.“

Alexandra: „Hvort sem þau eru sterkari, veikari eða á svipuðu getustigi þá munum við græða helling á þessu. Lærum að spila betur saman sem lið og komum reynslumeiri út úr þessu. Þarna getum við spilað yngri og reynsluminni leikmönnum meira, sem eflir þær og þar af leiðandi eflir liðið. Þannig að mér líst rosalega vel á og þetta mun vera mikilvægur undirbúningur fyrir tímabilið framundan.“

Hvaða væntingar hafið þið fyrir liðið þetta tímabil?

Bríet: „Að við gerum okkar besta og höfum gaman af því að spila þennan frábæra leik.“

Alexandra: „Það að allir leggi sig fram um að bæta sig og byggja liðið upp. Við eigum helling inni og munum 100% ná að stimpla okkur inn í deildina í ár og við munum taka öllum litlu sigrunum fagnandi á meðan við stefnum á þá stóru.“

Saga: „Ég hef engar kröfur eða sérstakar væntingar gagnvart liðinu og deildin fer bara eins og hún fer. Hinsvegar þá eigum við fullt inni og ég hef fulla trú á því að við náum að stimpla okkur almennilega inn í deildina þetta tímabil og væri ótrúlega skemmtilegt að fá að vera partur af því.“

Mikil breyting hefur átt sér stað í íslensku kvennahokkí síðustu ár, leikmönnum hefur fjölgað og gæðin aukist. Hvernig finnst ykkur þróunin á íslensku deildinni nú þegar margir sterkir leikmenn spila heima en ekki erlendis?

Alexandra: „Mér finnst þetta frábær þróun sem ýtir mjög undir samkeppnina í deildinni. Það munu allir þurfa að hafa meira fyrir hlutunum sem mun auka gæðin í leiknum talsvert. Það eru einnig margar ungar og efnilegar stelpur að koma upp sem munu læra helling á því að spila með og á móti þessum sterku og reynslumiklu leikmönnum.“

Bríet: „Mér finnst þessi þróun æðisleg fyrir deildina. Hún gerir hana bara meira spennandi og skemmtilegri bæði til að horfa á og spila í.“

Saga: „Deildin verður klárlega meira krefjandi með hverju tímabili sem líður og líka margir ungir leikmenn líka að stíga upp samhliða því að fleiri leikmenn eru að koma heim eftir að hafa spilað erlendis. Ótrúlega gott fyrir þróunina á íslensku kvennahokkí og ég get ekki beðið eftir að sjá hvað verður úr þessu.“

Skautahöllin í Cavalese er sérlega glæsileg með demantlaga þaki


Liðið á æfingu í dag í
Chiaccio Skautahöllinni í Cavalese og spila svo mótið um helgina sem hér segir:

Laugardagur 14. sept. kl. 11:30
Trentino vs SR

Laugardagur 14. sept. kl. 13:30
SR vs Icebears

Sunnudagur 15. sept. kl. 7:00
SR vs Zoldo

Hægt er að fylgjast með tölfræði leikja hér og hægt er að horfa á leikina í beinu streymi hér. Athugið að það þarf að stofna aðgang og kaupa áskrift. Er mjög einfalt og tekur stutta stund og einn mánuður kostar tæpar 10 evrur.

Forza SR!