Yfirlýsing frá stjórn íshokkídeildar SR v/ úrslitakeppni í Topp-deild karla 2025
Að kæra sig inn í úrslit vegna þess að þú komst ekki þangað á eigin verðleikum
Um helgina féll dómur hjá Dómstól ÍSÍ vegna kæru Fjölnis á hendur SR vegna leiks þess við SA 22. febrúar s.l. SR sigraði þann leik 3-0. Fjölnir kærði leikinn vegna meints ólöglegs leikmanns og of margra markvarða skráða á skýrslu. Dómstóllinn féllst á sjónarmið Fjölnis og dæmdi SR 0-10 tap. Ef þessi dómur fær að standa mun Fjölnir að öllum líkindum stela sæti SR í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn 2025 gegn SA.
Þetta er eins óheiðarlegt og óíþróttamannslegt og hugsast getur af hálfu Fjölnis því SR endaði 3 stigum fyrir ofan í deildarkeppninni og hafði því betur inn á ísnum í baráttunni um sæti í úrslitum. Eina leiðin sem Fjölnir sér til að komast í úrslit er að kæra leik sem þeir voru ekki einu sinni þátttakendur í vegna leikheimildar sem ÍHÍ gaf formlega út.
Meintur ólöglegur leikmaður kom ekkert við sögu í leiknum og hafði engin áhrif á gang eða úrslit leiksins. Vegna þess hve leikheimildin kom seint urðu mannleg mistök þess valdandi að þrír markverðir voru á rafrænni leikskýrslu. Hins vegar var strikað yfir þriðja markvörðinn á útprentuðum liðslista sem fulltrúar beggja liða kvittuðu undir eins og tíðkast hefur hjá öllum félögum þegar breytingar verða á liðum rétt fyrir leiki. Aðeins tveir markverðir voru í leiknum sjálfum eins og venjan er.
Hér er SR refsað grimmilega fyrir mistök við afgreiðslu leikheimildar hjá ÍHÍ sem SR bar enga ábyrgð á. SR fékk leikheimild og nýtti í góðri trú en sú leikheimild byggði á fyrra fordæmi sem einmitt Fjölnir fékk fyrir markvörð fyrir þremur árum. Hentuglega eru þeir á móti samskonar afgreiðslu núna.
Að kasta steinum úr glerhúsi
Ef Fjölni er svona umhugað um lög og reglur er áhugavert að skoða þeirra eigin leiki í vetur. Þar er ýmislegt áhugavert að finna.
Í tveimur leikjum Fjölnis gegn SFH, 4. og 18. október s.l., tefldi Fjölnir fram leikmanni á 14. aldursári en samkvæmt reglugerð ÍHÍ nr. 13 um Íslandsmót segir: „Leikmenn sem spila með meistaraflokki karla þurfa að ná 15 ára aldri á árinu sem spilað er á…“ Fjölnir sigraði báða leiki en með ólöglegan leikmann innanborðs.
Ef nýliðinn dómur ÍSÍ fær að standa er ljóst að fordæmið sem leikheimild til SR byggði á er líka ólöglegt. Þar af leiðandi er og hefur téður markvörður Fjölnis verið ólöglegur leikmaður í þrjú tímabil. Á síðustu leiktíð var hann 12 sinnum á leikskýrslu. Á þessu tímabili var hann einu sinni á leikskýrslu en það var einmitt leikur gegn SR sem Fjölnir sigraði 5-4 í Skautahöllinni í Laugardal 7. janúar s.l.
SR hefur ákveðið að kæra viðkomandi leiki og fara fram á að Fjölni verði dæmdur 0-10 ósigur í þeim öllum. Vissulega er kærufrestur liðinn en í lögum ÍSÍ segir í lið 24.2: „Dómstóll ÍSÍ getur veitt leyfi til að mál sé höfðað eftir að kærufrestur er liðinn ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“ Það verður ekki annað séð en að með úrskurði dómstóls ÍSÍ um helgina hafi orðið til þessar sérstöku ástæður enda skipta öll stig máli og Fjölnir að kæra leik vegna meints ólöglegs leikmanns þegar þeir hafa í að minnsta kosti þremur leikjum tímabilsins gerst sekir um þá háttsemi sjálfir.
Í 3. gr. reglugerðar ÍHÍ nr. 3 um viðurlög við notkun ólöglegra leikmanna er m.a. kveðið á um að við ítrekuð brot skuli viðkomandi félag dæmt til fjársekta og því vísað frá keppni í allt að 6 mánuði eftir eðli málsins.
Algjör óvissa um úrslitakeppni í Topp-deild karla
Eftir þessa kæru og dóm er ljóst að Fjölnir hefur sett úrslitakeppni í Topp-deild karla í algjöra óvissu, en hún átti að hefjast næsta laugardag 29. mars. ÍHÍ hefur ákveðið að fresta úrslitum um viku og er tilbúið að fresta lengur ef til þess kemur.
Ekki er búið að leiða málið til lykta því SR hefur nú viku til að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Það mun síðan taka áfrýjunardómstólinn tíma að fara yfir málið og úrskurða hvort dómurinn standi eða verði snúið við. Því er algjörlega óljóst hvort hægt verði yfir höfuð að spila úrslit fyrir lok apríl þegar karlalandsliðið fer til keppni á HM. Einnig munu kærur SR gagnvart ítrekaðri notkun ólöglegra leikmanna Fjölnis í vetur taka sinn tíma í gegnum dómstólakerfi ÍSÍ og mögulega áfrýjunardómstól.
SR skorar hér með á Fjölni að sætta sig við það að hafa tapað baráttunni inni á ísnum og gera frekar heiðarlega tilraun til að komast í úrslit á næsta ári. Eyðileggja ekki úrslitakeppnina fyrir íslenskum íshokkíaðdáendum eða jafnvel koma í veg fyrir að það verði úrslitakeppni yfir höfuð í ár.
Stjórn íshokkídeildar SR