Andrea Bachmann til Svíþjóðar

10/06/2025

Andrea Bachmann skrifaði nýlega undir samning við sænska félagið Almtuna IS fyrir næsta tímabil. Liðið er staðsett í Uppsala sem er 170.000 manna borg norðan við höfuðborgina Stokkhólm. Það spilar í næstefstu deild, Nationella Damhockeyliga, eða NDHL. Andrea hefur verið hryggjarstykkið í uppbyggingu kvennahokkís hjá SR síðustu ár og hefur verið aðalmarkvörður kvennalandsliðsiðs undanfarin mót. Við tókum Andreu í létt spjall til að forvitnast um þessa búferlaflutninga til Svíþjóðar.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fara út til Svíþjóðar?

Mig hefur lengi dreymt um að spila erlendis, og hefur Svíþjóð lengi verið á toppnum á listanum. Það eru nokkrar íslenskar stelpur sem spila eða hafa spilað í þessari deild og hafa þær margar sagt mér góða hluti um hana. Einnig er þægilegt hversu nálægt Svíþjóð er því flutningurinn er mikið auðveldari.“

Getur þú sagt okkur aðeins frá liðinu sem þú ert að fara í og við hverju þú býst þarna úti næsta tímabil?

Liðið sem ég er að fara í heitir Almtuna IS og er staðsett í Uppsölum. Þeir hafa ekki verið með kvenna lið undanfarin ár, en eru að sameina sig við Uppsala HC og vinna saman í að byggja upp kvennastarfið í Uppsölum.“ 

“Ég býst við krefjandi tímabili þar sem ég get bæði lagt mitt af mörkum og lært mikið af öðrum leikmönnum og þjálfurum. Þetta verður frábær reynsla og ég hlakka mikið til þess!“

Hjálpaði frábær frammistaða þín á HM kvenna þér að komast að þarna úti?

„Já, ég held það hafi klárlega haft áhrif. Ég fékk mikla reynslu á þessu móti og fann að ég óx mikið sem leikmaður. Það að fá að spila á móti svona sterkum liðum og með frábærum liðsfélögum hjálpaði mér gríðarlega. Ég nýtti það tækifæri vel og sýndi með því liðunum úti að ég gæti tekið leikinn minn upp á næsta stig.“

Ef þú horfir aðeins til baka á þessi ár með SR, frá því að kvennaliðið var endurvakið, hvað stendur helst upp úr?

„Það sem stendur helst upp úr hjá mér er hvað þetta lið hefur þróast og dafnað mikið á stuttum tíma. Það var virkilega gaman og mikill heiður að fá að vera partur af því að endurvekja aftur upp kvennastarfið og sjá það vaxa með árunum. Liðið í heild sinni núna er algjörlega frábær hópur sem er samheldin, ákveðin og einbeittur og mun ég sakna þess mikið að spila með þessum stelpum. Ég er þó spennt að fylgjast með þeim halda áfram að gera góða hluti á næsta tímabili.“

Við óskum Andreu góðs gengis í Svíþjóð og hlökkum til að fylgjast með henni þar.