Eduard nýr yfirþjálfari og íþróttastjóri

12/07/2025

Eduard Kascak er nýr íþróttastjóri og yfirþjálfari yngri flokka íshokkídeildar SR. Hann mun jafnframt þjálfa kvennalið SR ásamt Sölva Atlasyni en hann tók við því liði í vor. Eduard, eða Eddie eins og hann er jafnan kallaður er 29 ára gamall reynslumikill varnarmaður frá Slóvakíu og hefur spilað víða um Evrópu. Ásamt heimalandinu spilaði hann fimm tímabil í Svíþjóð, tvö í Noregi, eitt í Póllandi og eitt á Spáni – en hann kom þaðan til Íslands. Hann tekur við yfirþjálfarastöðu yngri flokka af Milosi sem verður áfram innan félagsins sem þjálfari karlaliðsins, U10 og  þróunarstjóri SR.

Eddie smellpassaði strax inn í félagið og var fljótt ljóst að það þyrfti að fá hann meira inn í starf SR enda mikill fengur fyrir félagið. Við tókum Eddie tali í tilefni þessa nýja hlutverks í félaginu en hann hefur störf í byrjun ágúst. 

Í fyrsta lagi hvað dró þig til Íslands?

„Eftir eitt tímabil í Spáni kom í ljós að félagið sem ég spilaði fyrir var að glíma við fjárhagserfiðleika. Á sama tíma var kærastan mín, Kaja, að klára námið sitt og við fórum að ræða hver okkar næstu skref gætu verið saman, í líf og starfi. Eftir smá hvíld heima ákváðum við að þrengja leitina við Noreg og Ísland.

Við fórum bæði að kanna tækifæri — ég hafði samband við umboðsmenn og tengiliði íshokkíheiminum og Kaja sótti um störf í sinni grein. Hún er dýralæknir sem sérhæfir sig í fiskum, þannig að ein helsta krafa hennar var að félagið eða borgin væri nálægt sjónum. Það þrengdi leitina, en við vorum vongóð um að finna stað sem hentaði okkur báðum.

Ekki löngu síðar hafði umboðsmaður samband við mig og sagði að félag á Íslandi hefði áhuga. Hann tengdi mig við Bjarna frá Skautafélagi Reykjavíkur. Eftir samtal við hann um framtíðarsýn félagsins og umhverfið í Reykjavík, fundum við bæði að þetta væri rétta skrefið. Tækifærið hentaði mér vel á ísnum og gaf Kaju góð tækifæri í hennar fagi. 

Þannig varð ég hluti af SR.“

Hvernig hefur fyrsta tímabilið gengið hjá þér sem leikmaður?

„Þegar ég kom fyrst til félagsins sem leikmaður, varð ég satt að segja hissa á því hvernig hlutirnir virkuðu hér. Í sannleika sagt, bjóst ég ekki við að íshokkí hér væri á jafn háu plani – og það kom skemmtilega á óvart. Það sem stóð enn meira upp úr var andrúmsloftið — strákarnir tóku mjög vel á móti mér, vinalegir og greinilega ástríðufullir fyrir leiknum. Frá fyrsta degi leið mér eins og hluta af liðinu, sem gerði mér mjög auðvelt að aðlagast hratt og vel.

Við áttum erfitt tímabil í heildina, en ég er mjög stoltur af hvernig liðið brást við öllum áskorunum sem komu upp. Á þessu stigi ferilsins einblíni ég ekki lengur mikið á tölfræði — nú kann ég betur að meta aðra þætti hokkísins, sérstaklega andrúmsloftið og menningu liðsins. Fyrir mér er það það sem skiptir máli til framtíðar.“

Þú dast mjög fljótlega inn í þjálfun hjá félaginu og U18 og U20 landsliðum drengja, hvernig var það?

„Sem þjálfari finnst mér ég hafa þróast mikið yfir tímabilið. Ég fékk tækifæri til að læra af mjög góðum þjálfurum, sérstaklega Milosi sem ég vann með í gegnum tímabilið, og einnig öðrum úr landsliðsstarfinu. Þetta var virkilega lærdómsríkt og ég reyndi að taka inn eins mikið af þekkingu og ég gat.

Ég vona líka að ég hafi getað gefið eitthvað til baka — að leikmennirnir hafi fundið að ég gat miðlað gagnlegri þekkingu og reynslu frá mínum ferli af ísnum. Þessi tenging og það að fá að leggja mitt af mörkum hafði mikla þýðingu fyrir mig.“

Hvað finnst þér um landið og fólkið?

„Utan íshokkís kom landið og fólkið hér mér mjög skemmtilega á óvart. Allir hafa verið vinalegir, komið fram af virðingu og verið hjálpsamir bæði innan og utan félagsins. Það hefur gert aðlögunina mun auðveldari fyrir mig.

Ég hef verið að kynnast menningunni og mér finnst fólk hér vera stolt af sinni sjálfsmynd og hefðum, sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það er alltaf áhugavert að upplifa lífið í nýju landi, og mér líður mjög vel hér. Þetta er staður þar sem ég er ekki bara að vinna á, heldur einnig að þroskast sem manneskja.“

Þú ert að taka við sem yfirþjálfari barna- og unglingastarfs hjá SR og íþróttastjóri – hvernig leggst það í þig?

„Það er mikill heiður að taka við sem yfirþjálfari barna- og unglingastarfs SR, sem og sem íþróttastjóri. Þetta er mikil ábyrgð en jafnframt frábært tækifæri til að hafa áhrif á framtíð félagsins.

Ég er spenntur að vinna með ungum leikmönnum, sérstaklega að skilja hvernig þeir hugsa leikinn og hvaða hugarfar þeir hafa (sem skiptir mjög miklu máli), en ég er hér til að styðja við vöxt þeirra bæði innan og utan íssins.

Allir þjálfarar hafa sína persónulegu nálgun og það er mjög jákvætt, en það er mikilvægt að við stefnum öll í sömu átt með sameiginlega sýn fyrir félagið. Ég mun vinna náið með þjálfarateyminu og öllum þeim góðum sjálfboðaliðum sem gera SR að frábæru félagi.

Ég vona að ég geti fært inn nýja sýn á íshokkí, byggða á minni reynslu sem leikmaður og þjálfari, og að það skilji eftir sig jákvæð áhrif til lengri tíma litið. Ég er staðráðinn í að byggja upp eitthvað sterkt með öllum sem taka þátt.“

Þú hefur spilað íshokkí víða um Evrópu — að þínu mati, hverjar eru áskoranirnar og tækifærin fyrir íslenskt íshokkí?

„Að mínu mati vantar ennþá skýra sjálfsmynd fyrir íslenskt íshokkí, þar myndi ég byrja. Hér er mikið af hæfileikaríkum leikmönnum, en það þarf að „selja“ íþróttina mun betur til almennings til að byggja upp vitund og stuðning.

Við erum með færri leikmenn til að vinna með en aðrar stærri hokkíþjóðir en það er mikið svigrúm til að vaxa ef stefnan er rétt og þjálfarateymið sterkt.

Íslenskt íshokkí stendur frammi fyrir áskorunum eins og takmörkunum á aðstöðu- og fjármunum. En með meiri fjárfestingu í íþróttinni og skýrri, sameiginlegri framtíðarsýn getur hún vaxið hratt. Ástríðan og skuldbindingin í hokkísamfélaginu er öflugur grunnur, og með áherslu á uppbyggingu og betri kynningu á íþróttinni getur Ísland skapað sína eigin sérstöðu og þróast áfram á alþjóðavettvangi.“

Við bjóðum Eddie hjartanlega velkominn í SR fjölskylduna og erum mjög spennt fyrir samstarfinu.