María Guðrún í SR

18/07/2025

SA-ingurinn María Guðrún Eiríksdóttir er gengin til liðs við SR fyrir næsta tímabil. María sem er að verða tvítug í september spilaði fyrir Karlskrona í Svíþjóð á síðasta tímabili. Við tókum hana í létt spjall af þessu tilefni.

Þú ert uppalin SA-ingur en ert að koma frá Karlskrona í Svíþjóð þar sem þú spilaðir á síðasta tímabili. Getur þú sagt okkur frá því hvernig var að spila þar og muninn milli þess að spila heima og þar?

„Það var rosalega skemmtilegt og lærdómsríkt að fara að spila erlendis, þótt liðið sem ég spilaði með væri ekki það besta í deildinni. Karlskrona er ekki stór bær í Svíþjóð — þar búa um 30.000 manns — þannig að klúbburinn var frekar lítill og umhverfið því mjög heimilislegt, svipað og maður er vanur hér heima. Ég myndi segja að helsti munurinn á því að spila hér heima og úti sé sá að hokkíhreyfingin úti er mun stærri. Það eru fleiri lið til að spila við og meiri samkeppni, þar af leiðandi eru fleiri leikir yfir tímabilið. En svo eru það litlu hlutirnir sem skipta líka máli, eins og aginn. Það var alltaf styrktaræfing fyrir ísæfingu, sem hafði mikið að segja — ekki bara líkamlega, heldur líka fyrir liðsheildina. Þetta hjálpaði okkur að kynnast betur og byggja upp sterkt hópefli.“

Nú ert þú að flytja til Reykjavíkur og ætlar að taka slaginn með SR í vetur. Hvernig leggst það í þig?

„Það leggst vel í mig og ég er spennt fyrir komandi tímabili.“

Þú ert að koma suður í nám ekki satt?

„Jú ég er að fara að læra þroskaþjálfafræði í Háskóla Íslands.“

Viltu spá eitthvað í spilin varðandi næsta tímabil – hvernig staðan mun verða milli liðanna?

„Ég held að næsta tímabil verði ennþá jafnara heldur en síðasta tímabil.“

Hvernig heldur þú að það verði að spila í bláu gegn þínu gamla uppeldisfélagi að norðan?

„Ég held að það eigi eftir að vera mjög skrítið að spila á móti þeim. Ég hef spilað með sumum þeirra síðan ég var 12 ára og aðrar hef ég þjálfað líka.“

Við bjóðum María hjartanlega velkomna í SR-fjölskylduna.