Þrjár landsliðskonur frá Akureyri, Ragnhildur Kjartansdóttir, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir og Inga Rakel Aradóttir, hafa gengið til liðs við kvennalið Skautafélags Reykjavíkur. Koma þeirra mun styrkja liðið gífurlega fyrir komandi tímabil enda allar hoknar af reynslu þrátt fyrir ungan aldur með samanlagt yfir 250 deildarleiki á Íslandi, yfir 50 deildarleiki erlendis og tæplega 70 A-landsliðsleiki.
Ragnhildur, 24 ára varnamaður, með 130 deildarleiki og 36 landsleiki, Gunnborg Petra, 20 ára sóknarmaður, með 66 deildarleiki og 16 landsleiki og Inga Rakel, 19 ára varnarmaður, með 60 deildarleiki og 16 landsleiki á ferilskránni. Þær hafa spilað eitt tímabil ferilsins erlendis, Ragnhildur og Gunnborg í Svíþjóð og Inga í Danmörku. Allar eru þær margfaldir Íslandsmeistarar með Skautafélagi Akureyrar og munu koma með dýrmæta sigurhefð í Laugardalinn í ungt og efnilegt lið SR.
Ekki eru norðankonurnar þær fyrstu til að hafa félagaskipti yfir í SR því 18 ára Fjölniskonan María Sól Kristjánsdóttir gekk einnig til liðs við félagið í vor eins og áður hefur verið kynnt.