Jóhann og Friðrika íshokkífólk SR 2024

29/12/2024

Stjórn íshokkídeildar SR valdi Jóhann Björgvin Ragnarsson og Friðriku Rögnu Magnúsdóttur íshokkífólk SR árið 2024.

Jóhann kom aftur heim í SR eftir tvö ár í Tékklandi fyrir síðasta tímabil og stimplaði sig rækilega inn í deildina og liðið með frábærri frammstöðu, var bæði efstur markvarða í deild og úrslitakeppni og átti stóran þátt í Íslandsmeistaratitli liðsins. Þótt hann sé aðeins 21 árs hefur hann á sæti í A-landsliðinu í fjögur ár. Jóhann tekur nú þátt í að búa til næstu kynslóð hjá SR með þjálfun markvarða í yngri flokkunum.

Friðrika hefur verið ein af stoðum í kvennaliði SR frá endurreisn þess fyrir nokkrum árum og var stigahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili og leiðir einnig í stigum núna. Friðrika tók þátt í sínu fyrsta landsliðsverkefni á árinu þegar hún fór með U18 stúlkna-landsliðinu til Búlgaríu þar sem hún var með 7 stig í fimm leikjum. Hún var einnig valin í A-landslið kvenna aðeins 15 ára gömul þegar það tók þátt í Ólympíuforkeppni í Slóvakíu núna í desember.

Bæði eru Jóhann og Friðrika frábærar fyrirmyndir fyrir yngri og eldri SR-inga og vel að þessum titlum komin. Þau eru bæði ung að árum og eiga langan og farsælan feril framundan.

Við óskum þeim innilega til hamingju með titilinn.

Að auki veitti stjórn nokkrum sjálfboðaliðum viðurkenningar fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins á árinu. Eins og allt íþróttastarf byggist uppbygging og rekstur SR nánast alfarið á góðvild foreldra, aðstandanda og annara velunnara félagsins sem leggja til sinn tíma og vinnu.
Í ár voru það Foreldrafélag SR, Álfhildur Erla Kristjánsdóttir, Birna Björg Guðmundsdóttir, Friðjón B. Gunnarsson, Viktor  Heiðarsson og Hafsteinn Snær Þorsteinsson sem voru viðurkennd.