Íshokkífólk ársins 2025

27/12/2025

Stjórn íshokkídeildar SR valdi Gunnborgu Petru Jóhannsdóttur og Sölva Frey Atlason íshokkífólks ársins árið 2025.

Gunnborg er á sínu öðru tímabili með SR og varð strax einn af máttarstólpum liðsins þegar hún gekk til liðs við félagið frá Malmö Redhawks í Svíþjóð. Hún var stigahæst SR-inga á síðasta tímabili og fimmta stigahæst í Topp-deild kvenna. Nú þegar núverandi tímabil er hálfnað er sama staðan upp á teningnum, efst SR-inga og í fimmta sæti í Toppdeildinni. Gunnborg gefur allt í hvern leik og hverja skiptingu og gengur fram með góðu fordæmi.

Sölvi hefur verið einn af öflugustu og mikilvægustu leikmönnum SR í mörg ár, leikmaður sem alltaf skilar sínu fyrir liðið. Sölvi hefur verið mjög ofarlega á lista yfir stigahæstu leikmenn síðustu fimm tímabil, síðan hann kom heim eftir tvö tímabil í Finnlandi. Í ár þegar tímabilið er um það bil hálfnað er hann þriðji stigahæsti í bæði SR og Toppdeildinni. Sölvi hefur verið aðstoðarþjálfari kvennaliðs SR í fjölda ára og stutt dyggilega við uppbyggingu kvennahokkís hjá félaginu.

Sölvi og Gunnborg eru bæði hluti af fyrirliðateymi sinna liða og ganga fram með góðu fordæmi fyrir aðra leikmenn sem og yngri SR-inga. Þau eiga farsælan feril að baki og mjög bjarta framtíð fyrir sér.

Við óskum þeim innilega til hamingju með titilinn.

Að auki veitti stjórn sjálfboðaliðum viðurkenningar fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins á árinu. Eins og allt íþróttastarf byggist uppbygging og rekstur SR nánast alfarið á góðvild foreldra, aðstandanda og annara velunnara félagsins sem leggja til sinn tíma og vinnu. Í ár voru það Atli Andrésson, Bjarni Þór Einarsson, Björn Guðmundsson, Dagur Þór Aspar, Jóhann Agnar Einarsson, Jón Gunnar Guðjónsson, Karen Linda, Ívar Pétursson og Melkorka Otradóttir. Við þökkum þeim kærlega fyrir sitt góða framlag.