Mikið var um að vera hjá SR-ingum um nýliðna helgi. Meistaraflokkur karla byrjaði á því að mæta Esju-mönnum í Skautahöllinni í Laugardal, þá sem gestalið því þetta var heimaleikur Esju. Leikurinn byrjaði nokkuð vel fyrir okkar menn þar sem þeir Styrmir Maack og Miloslav Rachansky okkur yfir í fyrstu logu en Esju-menn náðu að minnka muninn um miðja lotu með marki, á yfirtölunni, hjá Pétri Maack (jú, sem er stóri-bróðir hans Styrmis). Esju-liðar voru strerkari aðilinn í annari lotu þar sem þeir Egill Þormóðsson og Konstantin Sharapov náðu yfirhöndinni fyrir Esju en Kári nokkuð Guðlaugsson náði síðan að jafna metin rétt í blálok annarar lotu með lúmsku skoti. Snemma í þriðju lotu fá SR-ingar á sig refsingu og þurftu að spila manni færri í tvær mínútur. Esju-menn létu ekki bjóða sér það tvisvar og náðu að auka enn á forskotið með marki frá Ólafi Björnssyni. Stuttu fyrir leikslok náðu síðan Esju-liðar að skora fimmta mark leiksins og gera þannig út um leikinn og staðan 5 – 3 því raunin.
Stelpurnar stóðu í ströngu!
SR-stelpur tóku á móti SA-Ynjum eftir karlaleik Esju og SR. SR-stelpur sýndu fína baráttu í upphafi fyrsta leikhluta en síðan fór að síga á ógæfuhliðina. SA-Ynjur léku við hvern sinn fingur og gáfu SR-stelpum fá tækifæri og náðu að komast í 0 – 4 áður en Gerður Guðmundóttir náði að minna muninn örlítð fyrir lok lotunnar. Í upphafi annarar lotu var þar aftur áðurnefnd Gerður sem skorði fínt mark og minnkaði muninn enn frekar. En næstu tvö mörk voru Ynju mörk þar sem Sunna og Silvía Björgvinsdættur voru potturinn og pannan í þeim mörkum. Brynhildur Hjaltested skoraði síðan glæsilegt mark fyrir SR-stelpur, þegar þær spiluðu á yfirtölunni, og minnkaði muninn aðeins fyrir SR. En síðasta lota var lota Ynjanna og náðu þær að skora alls 3 mörk án þess að SR næði að svara. Því til viðbótar áttu SR-stelpur í villuvandræðum í lotunni sem vó þungt í þeirra leik.
Álfheiður Sigmarsdóttir, markvörður, varði eins og berserkur og stóð af sér orrahríð af skotum eins og best mátti vera. “Við eigum til að gleyma því að við erum gott lið, og hafa ekki sjálfstraustið í að spila af fullri getu. Við eigum meira inni” sagði Álfheiður að leik loknum.
Jóhanna bárðar, var að vonum raunsæ. “Þó að við séum að standa betur í hinum liðunum en við höfum gert eigum við langt í land með að standa jafnfætis þeim.” Jóhanna segir SR-inga ekki láta ósigurinn á sig fá. Þær hafi skorað þrjú mörk, sem væri jákvætt. “Við höldum bara áfram að vinna í þeim hlutum sem við þurfum að vinna í,” sagði hún að lokum.
Til gamans má horfa á hluta af öðrum leikhluta SR og Ynja í VR-upptöku á Youtube.