Velkomin í íshokkí!
Allar upplýsingar um æfingar, aukaæfingar og breytingar á dagskrá fara í gegnum Sportabler appið. Skráðir iðkendur (líka þeir sem eru að prófa frítt 1-2 skipti) hafa aðgang að appinu.
Allar aðrar upplýsingar og starfsemi yngri flokka og félagsins fara fram í gegnum Facebook hópinn Yngri flokkar SR íshokkí.
Hægt er að hafa samband við ishokki@skautafelag.is með fyrirspurnir eða spyrja þjálfara eða aðra foreldra á æfingartíma.
Íshokkískóli SR
Þar hefja allir 17 ára og yngri sinn íshokkíferil. Þegar skautagrunninum er náð færast krakkarnir yfir á hinn helming íssins þar sem U8/U10 eru með æfingar. Þar er meiri áhersla á íshokkí, krakkar eru með kylfur (sem þau geta fengið lánaða) og gera æfingar með pökka í bland við skautaæfingar. Krakkarnir eru yfirleitt nokkrar vikur í Íshokkískólanum áður en þeir færast yfir – en þó eru sumir af þeim allra yngstu lengur, fer bara eftir því hvenær þau eru tilbúin. Nánari upplýsingar um Íshokkískólann er hægt að sjá hér.
Skautar
Þegar krakkar eru prófa íshokkí geta þeir fengið lánaða skauta (þessa bláu) og hjálm hjá Skautahöllinni. Þegar krakkarnir eru komnir aðeins áleiðis er betra að vera á reimuðum skautum því bláu plastskautarnir eru ekki mjög þægilegar fyrir íshokkíæfingar. Félagið á eitthvað af skautum og er hægt að fá lánað á meðan viðkomandi stærð er til. Skauta þarf að skerpa reglulega – um það bil tveggja til þriggja vikna millibili fyrir byrjendur. Bláa skauta skerpir Skautahöllin reglulega en aðra skauta er hægt að skilja eftir í hillunni á íshokkíganginum. Skerping hjá félaginu er frí en Milos og sjálfboðaliðar úr hópi foreldra skerpa eftir þörfum.
Hjálmar
Það er í góðu lagi að vera með hjálma frá Skautahöllinni í Íshokkískólanum en þegar krakkarnir færast yfir í flokka þá verða þau að vera með hjálm með grind. Félagið á eitthvað af þeim til en annars er líka hægt að kaupa notað eða nýjan búnað (sjá hér í næsta kafla).
Hlífðarbúnaður
SR lánar búnað án endurgjalds og krakkar geta verið með hann þar til þau fjárfesta sjálf í eigin búnaði. Neðst á íshokkí.is er hægt að sjá hvaða hlífðarbúnað krakkarnir þurfa að vera í. Fyrir þá sem vilja kaupa búnað þá er bæði hægt að kaupa notað eða nýtt. Hokkífálkinn, sjoppan fyrir ofan pallana í Laugardalnum, selur eitthvað af búnaði (ekki skauta). Hokkífálkinn er ekki með fastan opnunartíma en hægt að hafa samband í gegnum Facebook síðu hans.
Notaðan búnað er hægt að kaupa á tveimur Facebook síðum: Íshokkíbúnaður til sölu, notað og nýtt og Hokkí sölusíða.
Nýjan búnað er hægt að kaupa í skautaversluninni Pollýönnu. Svo er líka hægt að panta af erlendum netverslunum eins og MonkeySports í Svíþjóð. Við ráðleggjum fólki að byrja á skautum og hjálmi þegar byrjað er að versla búnað. Gott er að fá ráðleggingar varðandi stærðir hjá félaginu – þjálfurum, foreldrafélagi eða reyndari foreldrum.
Kylfur
Kylfur er hægt að fá lánaðar hjá okkur. Passa þarf upp á að þær séu í réttri lengd – þegar krakkar eru í skautum nær kylfan undir höku en án skauta nær kylfan undir nef.
Undirgallar
Þegar krakkar byrja er best að vera klædd í léttan fatnað undir hlífunum. Þegar lengra er komið er gott að fjárfesta í
svitagalla, en það er léttur undirgalli undir hlífunum.
Þrif á búnaði
Treyjur, hokkísokkar og gallar
SR íshokkítreyjur með nafni og númeri viðkomandi leikmanns er hægt að panta í gegnum foreldrafélagið sem stendur reglulega fyrir hóppöntun á treyjum. Eins er farið með SR íþróttagalla. Hokkísokka er hægt að kaupa í Hokkífálkanum – sjoppunni fyrir ofan pallana ásamt hokkí- og sokkateipi, brúsum og öðru smálegu hokkídóti.
Nánar um Foreldrafélagið hér.
Ferðir og mót
Venjulega eru tvö barnamót í Reykjavík og tvö á AK á hverri leiktíð. Á mótum á Akureyri er ferðasta saman í rútu, gist í Skjaldarvík fyrir utan Akureyri og borðað þar saman. Hver fjölskylda fær sér herbergi. Foreldrar eru velkomnir með og kostar ferðin yfirleitt á bilinu 23-25.000 kr. á mann með öllu (rúta, gisting og matur). Nánar um mót tímabilsins
hér. Foreldrafélagið býður upp á fjáraflanir, yfirleitt 1-2 á hverjum vetri. Upplýsingar um þær eru birtar í
Facebook hópnum okkar
Fleiri spurningar?
Ekki hika við að spyrja þjálfara eða aðra reyndari foreldra á æfingartíma, setja inn spurningar í Facebook hópinn okkar, eða ræða við þjálfara og reyndari foreldra í íþróttinni.