Maack bræðurnir Pétur og Styrmir hafa verið áberandi í liði SR á tímabilinu. Pétur með 3 mörk og Styrmir með 2 mörk og 3 stoðsendingar nú þegar sex af tólf leikjum er lokið í Herzt-deildinni.
Það eru 10 ár á milli bræðranna, Styrmir fæddur 2000 og Pétur árið 1990, en margir hafa tekið eftir góðu samspili þeirra þegar þeir hafa verið saman í línu.
Styrmir: „Við spilum stundum saman í línu og það hefur virkað vel fyrir okkur.“
Pétur: „Já það er einhver bræðratenging þarna – en ég held að þjálfararnir séu ekki búnir að gefa því nægilega mikinn séns að hafa okkur saman í línu.“
Báðir eru þeir uppaldir SR-ingar en hafa komið við í öðrum liðum á ferlinum.
Styrmir: „Ég byrjaði 5 ára að æfa íshokkí hjá SR, en líklega af fullum krafti um 7 ára aldur. Hef alltaf spilað með SR fyrir utan eitt tímabil með Kingsville Kings í Kanada 2017-2018. Ég fór út 17 ára og var yngstur í liðinu en mjög gaman að prófa eitthvað nýtt. Mjög þroskandi og skemmtileg reynsla sem ég hafði gaman af.“
Pétur: „Ég byrja 1996 hjá SR á útisvelli í Laugardalnum, spila í Svíþjóð frá 2008-2010 með U20 Mörrum Gois og karlaliði Osby IK, svo aftur í SR 2011.“
Pétur flutti sig yfir í Esjuna fljótlega eftir að hún var stofnuð 2014. Hvað stendur upp úr því ævintýri að hans mati?
„Félagsskapurinn og brautryðjendastarf, ég er stoltur af því sem við reyndum að gera fyrir íþróttina“. Aðspurður um áhrif Esju á hreyfingunni segir Pétur: „Ég hugsa að íþróttin standi í stað eða sé á verra stað í dag, leitt að segja það. Esju verkefnið var tilraun til þess að reyna að stækka sportið og pressa á að fá meira aðstöðu. Það byggir enginn nýja höll fyrir engan.“
Þriðji bróðirinn, Markús fæddur 1998, er líka íshokkíleikmaður úr SR. Hann hefur ekki spilað síðan 2018 en mætir á æfingar þegar hann hefur tíma. Er ekki pressa í fjölskylduboðum að hann spili aftur í SR svo það sé hægt að mynda heila Maack sóknarlínu?
Pétur: „Jú jú! En hann þarf að mæta á fleiri æfingar ef hann ætlar að vera með okkur í línu. Það væri gaman að hafa hann með!!“
Allir þrír hafa verið í fremstu röð og spilað með yngri landsliðum og Pétur með A landsliðinu. En hvernig varð til að þeir fóru allir í íshokkí.
Styrmir: „Ég byrjaði út af Pétri og var alltaf niðri í höll þegar ég var yngri.
Nú hafa sigrar látið á sér standa hjá SR í vetur þrátt fyrir margar fína leiki – hvernig lítur það út frá sjónarhorni leikmanna? Hvað vantar upp á hjá liðinu til að landa sigrum?
Styrmir: „Það vantar breidd í liðið. Erum með mjög öflugt lið en vantar aðeins upp á breiddina. Eigum séns í öll lið.“
Pétur: „Sammála. Við erum fáir og ungir. Gamall maður eins og ég getur ekki leikið aðra hvora skiptingu.“
Styrmir: „Við getum unnið alla leiki ef við leggjum okkur fram og nýtum færin okkar.“
Hvernig fáum við fleiri leikmenn í liðið?
Pétur: „Lykillinn er að byggja upp stemmningu í hópnum, þá eru meiri líkur á að menn vilji setja allan þennan tíma í þetta.“
Styrmir: „Við erum komnir með mjög góða stemmningu í liðið og erum að vonast eftir að fleiri leikmenn mæti.“
„Við ætlum að sækja sigur í kvöld!!“ segir Pétur að lokum en SR leikur við Fjölni kl. 19.45 í Egilshöll í kvöld. Við hvetjum alla til að fjölmenna á pallana og styðja okkar lið!