Fyrirliði kvennaliðs SR, Brynhildur Hjaltested 18 ára og aðstoðar-fyrirliðarnir Alexandra Hafsteinsdóttir 20 ára og April Orongan 18 ára hafa verið í eldlínunni með liðinu í vetur. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þær samanlagt yfir 30 ára reynslu enda byrjuðu þær allar að æfa í kringum 2010. Það er ekki það eina sem þær eiga sameiginlegt því allar eiga þær bræður í íshokkí.
–
Fylgir ekki mikil pressa að vera fyrirliðar í liði með hátt hlutfall af ungum og óreyndum leikmönnum?
Alexandra: „Ég get ekki neitað því að þetta er stundum erfitt. Ég finn fyrir mikilli pressu og finnst ég verða að standa mig fyrir yngri stelpurnar í liðinu. Margar af þeim mættu á sínar fyrstu íshokkíæfingar hjá mér – ég var að kenna sumum þeirra að skauta og halda á kylfu fyrir ekki svo löngu.“
„En á sama tíma er það ólýsanleg tilfinning að sjá þessar stelpur blómstra og ná svona miklum árangri – algjör forréttindi að leiðbeina jafn metnaðarfullum og duglegum stelpum“ bætir Alexandra við.
April sem kom frá SA fyrir þetta tímabil var mikill liðsstyrkur og hefur staðið sem klettur í vörninni í vetur: „Mér finnst ekki vera pressa á mér frá liðinu – frekar að ég set pressu á sjálfa mig að standa mig vel fyrir liðið. Það er ekkert smá mikill munur á liðinu núna og á fyrstu æfingunni. Ég var smá stressuð fyrir tímabilinu en stelpurnar voru svo fljótar að læra og duglegar að hlusta. Þetta er oft erfitt en æði að sjá stelpurnar bæta sig með hverri æfingu.“
Brynhildur: „Ég hef ekki fundið fyrir mikilli pressu en þetta tímabil hefur samt tekið sinn toll. Það var erfitt að byrja á byrjunarreit og þá sérstaklega með svona marga óreynda leikmenn. Okkur tókst samt að mynda góðan móral innan liðsins og þeir leikmenn sem hafa meiri reynslu hafa stigið upp og leiðbeint yngri stelpunum.“
„Ekki má gleyma gullmolunum sem sneru til baka en þær hafa staðið sig með prýði“ bætir Brynhildur við.
Kvennalið SR er á þessu fyrsta tímabili blanda af óreyndari yngri leikmönnum og reyndari leikmönnum eins og Lísu Ólafs (sem kom frá Fjölni) og Lisu Grosse, Guðbjörgu, Kristínu, Jóhönnu og Erlu sem sneru aftur eftir á ísinn eftir hlé. Karítas setti markmannspúðana á hilluna og kom sér fyrir í sókninni. Í markinu stendur Andrea en Thelma hefur verið að glíma við meiðsli í vetur en Lisa Grosse hefur hlaupið í skarðið þegar á þarf að halda.
–
Hefur tímabilið þróast eins og þið bjuggust við?
Brynhildur: „Þetta tímabil hefur farið fram úr öllum mínum væntingum. Ég hef séð miklar bætingar í liðinu og þá sérstaklega hjá þeim yngri. Ég myndi samt segja að þetta hefur reynt hve mest á hausinn og þá sérstaklega þolinmæðina.“
April: „Tímabilið þróaðist mun betur en ég hélt í byrjun, ég er mjög stolt af stelpunum að hafa stigið upp í þetta erfiða hlutverk.“
–
Nú hefur kvennahokkí á Akureyri verið í yfirburðarstöðu hérna á Íslandi nánast frá upphafi - unnið 19 af 20 íslandsmeistaratitlum. Eiga Reykjarvíkurliðin einhverja von um að veita SA einhverja samkeppni á næstu árum?
April: „SA-ingar hafa haft mjög mikinn tíma til að byggja upp liðið sitt sem sést í leikjunum.
Það tekur tíma að byggja upp lið og yngri stelpurnar í meistaraflokknum sem eru að stíga sín fyrstu skref núna og stelpurnar sem eru að standa sig svo vel í yngri flokkunum eru framtíðin í SR. Á næstu árum held ég að við eigum alveg góðan séns að jafna getustig SA-inga.“
Brynhildur: „Það margt sem er ennþá ólært en ég veit að einn daginn munum við ná í skottið á Akureyri, þau eru ekki óstöðvandi. Hjá yngri flokkum SR má sjá veldisvöxt í þróuninni og þá sérstaklega hjá stelpuliðinu sem fer sívaxandi. Því tel ég að þið munið sjá breytingar heldur fyrr en seinna þar sem stelpurnar í yngri flokkunum eiga ekki langt í land.“
–
Finnið þið fyrir aðstöðumun eða viðhorfsmun á milli kvenna- og karlahokkí?
Alexandra: „Staðan í Reykjavík hefur verið þannig að hvaða stelpa sem er getur labbað inn í skautahöllina og verið komin í meistaraflokk viku seinna án þess þó að kunna að skauta eða vita hvað snýr upp og niður á kylfunni. Standardinn fyrir kvennahokkí hefur ekki verið hærri en það og lengi vel var ekkert gert til þess að bæta úr þessu. Svona lagað myndi aldrei sjást i meistaraflokki karla, eða bara í meistaraflokki í neinum öðrum íþróttum. Einnig var það þannig að kvennaliðið átti ekki sér klefa eins og karlaliðið, liðið fékk gömlu karlatreyjurnar og nánast hver sem er gat verið ráðinn til að þjálfa liðið.
Sem betur fer er þetta viðhorf að breytast og nú er SR virkilega að taka á því að jafna út muninn. Í dag eigum við okkar klefa, okkar treyjur og umfjöllunin er sú sama fyrir okkur og fyrir strákana. Félagið sýnir okkur i dag alveg jafn mikinn stuðning og það sýnir karlaliðinu – eitthvað sem ég kann virkilega vel að meta.
Ég myndi hins vegar vilja fá fleira stuðningsfólk í stúkuna. Kvennaliðið hefur alltaf viljað styðja strákana í blíðu og stríðu. Mér þætti rosalega gaman að sjá þá sýna okkur sama stuðninginn, og ekki bara þá heldur alla sem styðja SR. Fáir áhorfendur uppi í stúku er engin hvatning fyrir okkur að standa okkur vel.“
Brynhildur: „Já, ég hef fundið fyrir alltof of miklum viðhorfsmun en minna af aðstöðumun. Mér finnst SR standa sig afar vel að passa upp á kynjakvótann. Þar sem meistaraflokkar SR fá alveg jafn mikið af fríðindum. Viðhorfsmunur á milli kvenna og karla í íþróttum er mjög svipuð milli íþrótta. Það er alltaf meirihluti fólks sem kýs að horfa á karlana fram yfir okkur konurnar, sem er skömm og sorglegt.“
April: „Sammála – ég hef fundið fyrir miklum viðhorfsmun en minna af aðstöðumun í SR. Þegar ég var í SA var mikill aðstöðumunur á milli meistaraflokka karla og kvenna.
Sem kvennaleikmaður hef ég alltaf fundið fyrir viðhorfsmun og tek sérstaklega eftir því þegar ég er með Axel bróður mínum. Fólk spyr hann hvernig gengur í íshokkí þótt við séum bæði að spila. Jafnvel þó ég sé ekki með honum er samt spurt hvernig gengur hjá honum en ekki mér – flestum virðist sama um kvennaíþróttir – það sést bara á hvernig mætingin í stúkunum er á leikina.“
–
Hvað með framtíð liðsins?
Brynhildur: „Ég er stolt af mínum stelpum og þeim framförum sem þær hafa tekið á þessum fáu mánuðum og er bjartsýn og spennt fyrir komandi árum.“
Alexandra: „Ég hlakka mikið til framtíðarinnar og ég veit að allt okkar erfiði mun borga sig margfallt eftir nokkur ár. Það er magnað að fá að taka þátt í því og leiða uppbyggingu þessa liðs – ég myndi ekki vilja hafa þetta öðruvísi enda hef ég aldrei verið jafn stolt af liðinu sem ég spila fyrir.“
–
Nú eru tveir leikir eftir af tímabilinu, báðir gegn Fjölni. Hvernig líst ykkur á þá leiki?
April: „Mér líst vel á þessa leiki – eftir hvern leik er bæting á liðinu. Hver og ein af stelpunum standa sig eins vel og þær geta í leikjunum og hætta ekki sama hvað. Það er það sem skiptir mestu máli sama hvað stigataflan segir. Ég hef mikla trú á liðinu og held við séum bara mjög vel staddar fyrir leikina.“
Alexandra. „Mér líst bara vel á þá leiki og ég hlakka til að spila þá. Að mínu mati hefur hver leikurinn hjá okkur verið betri en sá fyrri þannig að ég trúi því að við munum standa okkur vel og kannski koma okkur sjálfum á óvart. En alveg sama hvernig fer þá nýtum við tækifærin til þess að bæta okkur, gera mistök og læra af þeim, og gefa okkar allt í þetta fram á síðustu mínútu.“