Andrea Diljá fékk markmannshlutverkið hjá nýju kvennaliði SR óvænt í fangið á síðasta tímabili, þá aðeins 14 ára gömul. Þar stóð hún sig með eindæmum vel og er nú að fara með kvennalandsliði Íslands að spila á Ólympíuumspili í Nottingham í Bretlandi 7.-10. október.
Andrea hefur staðið milli stanganna í gegnum yngri flokka SR og ekki gefið strákunum neitt eftir, oftar en ekki skilið þá eftir í rykinu. En ætlaði Andrea alltaf að verða markvörður?
„Nei, ég prófaði markið í fyrsta skiptið í kringum átta ára aldur á barnamóti hjá SR og varð ástfanginn af stöðunni. Síðan þegar ég var níu ára færði ég mig alfarið í markið og sex árum seinna er ég að æfa og spila bæði með U16 og meistaraflokki kvenna.“ segir Andrea.
SR tefldi fram eigin kvennaliði á síðasta tímabili eftir þriggja ára samstarf við Fjölni. Liðið er að stórum hluta skipað leikmönnum úr yngri flokkum félagsins, eins og Andreu, í bland við reynslumeiri leikmenn.
Nú varstu óvænt komin með stórt hlutverk í nýstofnuðu kvennaliði SR á síðasta tímabili. Hvernig var sú tilfinning?
„Bara mjög spennandi að fá loksins að spila með meistaraflokki hjá SR. Ég var pínu stressuð þar sem þetta var fyrsta tímabilið mitt sem aðalmarkvörður kvennaliðsins og ég vissi hvað það væri mikilvæg og krefjandi staða. Á endanum var þetta bara mjög skemmtilegt tímabil.“
Oft var mikil orrahríð á markið, er mikil pressa að bera ábyrgð á þessari stöðu?
„Já það er auðvitað alltaf mikil pressa á markmönnunum þar sem við erum seinasta varnarlínan. Ef liðið vinnur ekki nógu vel saman þá lendir oft pressan á markmanninum. Maður leggur sig allan fram í leikinn en það endar ekki alltaf vel. En ef maður veit að maður hefur gert sitt besta þá er ekkert meira sem hægt er að gera. Maður verður að sætta sig við útkomuna, sama hver hún er.“ segir Andrea sem alltaf virðist yfirveguð á að líta út á ísnum.
Nú ertu komin í kvennalandsliðið, aðeins 15 ára gömul. Hefur þú stefnt að þessu lengi eða var óvænt að komast svona ung í landsliðið?
„Ég hef stefnt að þessu lengi en átti aldrei von á að komast svona snemma inn. Ég er á undanþágu þar sem að ég er tæknilega ári of ung og þess vegna brá mér svo mikið þegar ég komst allt í einu inn í ár.“
Nú er kvennalandsliðið að fara til Bretlands og keppa við mjög sterkar þjóðir eins og Bretland, Slóveníu og Suður-Kóreu en öll eru þau ofar á styrkleikalista alþjóða íshokkísambandsins. Hvernig líst þér á andstæðingana og ferðina sjálfa?
„Mér líst vel á andstæðingana. Þetta eru 3 erfið lið og verður þessi keppni mjög erfið og krefjandi. En ég hlakka mikið til að fá þetta tækifæri að fá að spila á móti svona stórum þjóðum og fá reynsluna út úr þvi. Þessi ferð verður önnur keppnisferðin mín til útlanda á ævinni og er ég mjög spennt að fá að spila í nýju landi og kynnast hokkíþjóðinni Bretlandi.“
Nú er bara sex dagar í fyrsta leik kvennaliðs SR, heimaleikur gegn nágrönnum okkar í Fjölni. Hvernig leggst tímabilið í þig?
„Ég er ógeðslega spennt fyrir tímabilinu og get ekki beðið eftir fyrsta leiknum í næstu viku!“
Hvernig heldur þú að tímabilið þróist í samanburði við tímabilið í fyrra?
„Ég held og vona að það gangi betur í ár. Við erum búnar að vera æfa okkur mikið og get ég ekki beðið eftir því að sjá hvernig fyrsti leikurinn fer.“ segir Andrea að lokum.
Fyrsti leikur kvennaliðs SR er heimaleikur gegn Fjölni, þriðjudaginn 14. september kl. 19.45.
1000 kr. aðgangseyrir
Frítt fyriri 16 ára og yngri