Yfirlýsing frá stjórn SR íshokkí
Föstudagsmorgun 25. mars sl. sendi SR íshokkí erindi til Aganefndar Íshokkísambands Íslands er varðaði atvik úr öðrum leik SR og SA í úrslitakeppni Hertz-deildar karla í íshokkí, sem fram hafði farið kvöldið áður. Því fylgdi atvikalýsing og myndbandsupptaka frá atvikinu sem sýndi greinilega leikmann SA slá með kylfu (e. spearing) í klof leikmanns SR og skauta síðan skömmu síðar viljandi í höfuð hans er hann lá á ísnum. Ekki nóg með að til væri myndband heldur var fjöldinn allur af vitnum í stúkunni sem sáu atvikið.
Úrskurður Aganefndar var birtur að kvöldi sunnudags 27. mars en dagsettur 26. mars. Hann beið því heilan sólarhring í fórum Aganefndar áður en hann var birtur en samkvæmt reglugerð ÍHÍ um aganefnd ber henni að birta úrskurð sinn strax að loknum fundi nefndarinnar.
Aganefnd vísaði málinu frá með þessum orðum:
„Aganefnd vísar málinu frá. Engin dómaraskýrsla er til af atvikinu enda enginn dómur kveðinn upp í leiknum varðandi tiltekið atvik.“
Stjórn SR harmar mjög að svona ljót brot skuli látin viðgangast í íþróttinni og öryggi leikmanna í deildinni sé að engu haft. Það er fráleitt að Aganefnd ÍHÍ, sem ætla mætti að starfaði til þess að taka á slíkum brotum, skuli kjósa að aðhafast ekkert og neita að sinna því hlutverki sem hún er stofnuð til að sinna.
Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um aganefnd er hlutverk hennar einmitt að „úrskurða um agabrot, óprúðmannlega eða ámælisverða framkomu…“. Valdsvið Aganefndar er líka víðtækt eins og kemur fram í sömu grein reglugerðarinnar.
Ef dómari leiksins hefði séð leikmann lemja með kylfu fyrir neðan beltisstað andstæðingsins hefði honum verið vikið af velli og fengið sjálfkrafa tveggja leikja bann. Það sama gildir um að keyra viljandi á höfuð andstæðings sem er sérlega hættulegur leikur enda hefur orðið vitundarvakning í flestum öðrum íþróttasamböndum um alvarleika höfuðmeiðsla og heilahristings. En af því að dómarinn sér ekki atvikið þá kemst leikmaðurinn upp með þessa hegðun þrátt fyrir myndbandsupptöku. Það er ólíklegt að þetta yrði látið viðgangast í nokkurri annarri íþróttagrein á Íslandi.
Aganefnd ber fyrir sig vinnureglu sem hún setti sér í upphafi tímabils, að hún tæki ekki fyrir brot nema þau komi fyrir á atvikaskýrslu frá dómurum viðkomandi leiks. Það er ekki nema leikmenn slasist alvarlega að hún víkur frá þessari reglu. Vegna þessarar vinnureglu fá gróf brot að viðgangast án afleiðinga. Leikmenn fá að gera það sem þeim sýnist þar til þeir loksins ganga nógu langt til þess að slasa einhvern alvarlega.
Í raun má færa rök fyrir því að þessi vinnuregla aganefndar samrýmist ekki 3. gr. reglugerðar um aganefnd. Það er skoðun stjórnar SR íshokkí að þessi vinnuregla sé til þess fallin að dómarar fái ekki þann stuðning sem þeir eiga skilið í sinni vinnu enda ekki hægt að ætlast til þess að þeir sjái allt sem gerist inn á ísnum.
Það er mjög skýr lagaheimild í lögum um aganefnd til þess að taka fyrir önnur atvik en þau sem koma fyrir á skýrslum dómara og notast við myndbandsupptökur.
- gr.
Aganefnd byggir úrskurð sinn á leik- og atvikaskýrslum viðkomandi leiks. Þó getur aganefnd einnig tekið fyrir önnur mál er henni berast og hún telur ástæður til. Aganefnd er heimilt að gefa málsaðilum kost á munnlegum eða skriflegum málflutningi ásamt því að leggja fram myndbandsupptökur eða önnur sönnunargöng sem skipt geta máli við mat á viðurlögum. Aganefnd skal hafa frjálst sönnunarmat á gögnum þeim er lögð eru fyrir nefndina.
Sjá reglugerð um aganefnd á vef ÍHÍ.
Sami leikmaður og um ræðir lamdi einnig kylfu í klof annars leikmanns SR í leik liðanna 11. mars sl. Myndbandsupptöku af brotinu 11. mars fékk aganefnd einnig senda til þess að sýna að ekki var um einstakt tilfelli að ræða 24. mars heldur ítrekaður brotavilji og ásetningur. Téður leikmaður hefur áður verið sakaður um samskonar hegðun inn á ísnum.
Af þeim ástæðum sem hér eru raktar lýsir stjórn SR íshokkí yfir vantrausti á aganefnd Íshokkísambands Íslands enda er ljóst að hún er ófær um að stuðla að öryggi leikmanna. Fer stjórn SR íshokkí fram á að stjórn Íshokkísambands Íslands taki starfsemi aganefndar til skoðunar og geri þær breytingar sem þarf til þess að öryggi leikmanna verði haft að leiðarljósi í störfum hennar. Áður en orðspor íþróttarinnar býður frekari hnekki með tilheyrandi skaða fyrir uppbyggingarstarf íshokkís á Íslandi.
Virðingafyllst,
stjórn SR íshokkí
—-
Hér er hægt að nálgast í Word skjali upphaflegt erindi til aganefndar sent á ihi@ihi.is föstudaginn 25. Mars kl. 8:16 ásamt úrskurði aganefndar.
Erindi-til-aganefndar-25mars