SR TILBÚNAR Í TOPPLIÐ DEILDARINNAR ÞRÁTT FYRIR MEIÐSL

17/11/2016

SR-stelpur hafa farið mikinn að undanförnu. Þó svo að toppur deildarinnar sé ekki þeirra, þá eru þær “inn í” öllum leikjum sem spilaðir eru, eins og sagt er, og svo er stemningin í liðinu fádæma góð og nýjir, ungir spilarar hafa mikinn áhuga á að vera í þessu liði. Það er því ekki ofsögum sagt að framtíðin sé björt hjá meistaraflokki kvenna. En einbeitum okkur að næsta leik liðsins.

Laugardaginn næstkomandi fara stelpurnar okkar í bílferð til Akureyrar og mæta þar erfiðasta liði deildarinnar. SR hefur mætt Ynjum tvisvar sem af er vetri. Fyrri leiknum töpuðu þær með naumindum. Nánar tiltekið með einu marki. Annan leik liðanna unnu Ynjur auðveldlega.

“Við þurfum að leggja okkur allar fram til að standa vel í þeim,” segir Jóhanna Bárðardóttir, sem spilar á vængnum. Hún segir keppikefli fyrir liðið að hver leikmaður spili þá stöðu sem lagt er upp með. Hún leggur áherslu á að vörnin spili þétt og að þær “taki skotin af” Ynjum. 

Alexöndru Hafsteinsdóttur lýst vel á leikinn og hefur trú á sínu liði. “Ynjurnar eru virkilega sterkar en ef við erum með hausinn á réttum ættum við að geta unnið.” Eitthvað er um meiðsl í liði SR og nokkrar úr leikmannahópnum spila ekki fyrir norðan. Alexandra segir þjálfarana munu svara þessu með að raða rétt upp. “Ég hef fulla trú á að þetta muni líta eins vel út og hægt er,” sagði Alexandra að lokum, löðrandi sannfærð í SR-anda, að vanda.

Staðan í Hertz-deild kvenna er þannig að Ynjur eru á toppnum. Ásynjur eru í öðru sæti, SR í því þriðja og Björninn rekur lestina. Jóhanna Bárðar hefur skorað eitt mark, Alexandra er með eitt mark og eina stoðsendingu. Atkvæðamest SR-inga er Brynhildur Hjaltested með tvö mörk og þrjár stoðsendingar.