Þessa daganna er verið að leggja loka hönd á skipulag sumarbúðanna hjá okkur í listhlaupadeild SR. Sumarbúðirnar verða í Egislhöll í júlí og í Laugardalnum í ágúst. Við verðum í samstarfi við listhlaupadeildina hjá skautafélaginu Birninum með skautabúðirnar í júlí. Allar æfingar og fyrirlestrar utan ístíma verða sameiginlegar, en á ís verða félögin með sína þjálfara fyrir sína iðkendur.
Dagskrá búðanna er spennandi og metnaðarfull. Auk þjálfara SR fáum við til okkar gestaþjálfara sem og annað íþróttafólk sem hjálpa til við ólíka hluta undirbúnings fyrir komandi tímabil. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána og verður hún birt á næstu dögum.
Mikilvægi sumarbúða fyrir iðkendur
Iðkendur ná mestu framförum í sumarbúðunum þar sem þau eru á ísnum að gera æfingar 5 daga vikunnar í 2-3 tíma á dag. Þau fá þjálfun hjá mismunandi þjálfurum, öllum með mikla reynslu af skautaþjálfun, þar sem í hverjum tíma er unnið markvist af vissum atriðum. Auk þjálfurnar á ís verða dagarnir brotnir upp með mismunandi afísæfingum eins og jazzballet, suðuramerískum dönsum, fyrirlestrum ofl. þar sem þjálfarar í viðkomandi grein koma og kenna. Þessar afísæfingar stuðla að auknum styrk og liðleika auk þess sem þær kenna vissar hreyfingar til að nota í túlkun í skautadansinum.
Það að taka of langa pásu frá skautasvellinu á sumrin getur orðið til þess að iðkendur missa niður getu sem svo tekur dýrmætan tíma að vinna upp að hausti. Skautaíþróttinn er ung hér á landi og er í stöðugri þróun. Við hjá SR höfum horft til þess hvernig aðrar þjóðir haga sinni þjálfun. Víða erlendis skiptist árið í 3 tímabil, æfingatímabil þar sem iðkendur byggja sig upp og bæta við sig í getu. Það tímabil er oftast frá miðjum eða lok júní og fram í lok ágúst. Þá tekur við keppnistímabil þar sem áhersla er lögð á að viðhalda þeim árangri sem náðist yfir sumarið og byggt ofan á það fyrir þær keppnir sem framundan eru. Þriðja tímabilið er svo hvíldartímabilið sem hefst þegar keppnum lýkur, þá er oftast aðeins slakað á og æfingum fækkar og tími til að gera eitthvað skemmtilegt eins og vorsýninginn okkar og í framhaldinu frí í 3-5 vikur. Í þessu fríi fara sumir iðkendur sem eru lengst komnir í viku æfingarbúðir erlendis til að halda sér í formi.
Sumarbúðirnar eru ekki aðeins mikilvægar upp á framfarir heldur líka til að styrkja vinatengsl meðal annarra iðkenda, en góð félagsleg staða í íþróttinni er oft grundvöllur þess að iðkendur haldist lengur í íþróttinni.
Fyrir iðkendur sem eru komnir í A og B keppnisflokkar er ekki talið æskilegt að taka mikið meira en 3-4 vikur samfellt í frí þar sem þá, eins og áður segir, getur iðkandi farið að missa niður styrk og getu til að gera erfiðari stökk og spinna. Þá hafa iðkendur oft þurfa að fara utan í æfingarbúðir þar sem ekki hefur verði grundvöllur til að halda úti sumarbúðum hér á landi. Síðustu árin hefur SR þó byggt upp öflugar sumarbúðir og fengið til sín gestaþjálfara til að þjálfa og hefur iðkendum fjölgað jafnt og þétt sem taka þátt í búðunum. Það hefur sparað þeim iðkendum sem hvað lengst eru komnir mikið fé að þurfa ekki að dvelja lengi erlendis í æfingarbúðum og bætt stöðu þeirra sem þátttakendum á alþjóðlegum skautamótum. Í framtíðinni er stefnan tekin á að ná að hafa æfingatímabilið 11 mánuði eins og tíðakst í flestum keppnisgreinum.
Fyrir iðkendur sem eru í C keppnisflokk eru sumarbúðir mikilvægar til að læra ný stökk og spinn og bæta sig í grunnskautun, rétt eins og lengra komna. Þeir iðkendur sem hafa það markmið að komast upp í hærri keppnisflokka ættu að reyna að mæta sem mest í sumarbúðir, það eykur líkurnar á að markmiðum verðir náð fyrr en ella. Auk þess eru grunnprófin í lok ágúst og þá er bertra að mæta vel til að eiga möguleika að komast í þau.
Við teljum mikilvægt að bjóða sem flestum iðkendum okkar að koma í sumarbúðir og í ár eru búðir fyrir alla framhalds iðkendur, allt frá iðkendum sem eru nýkomnir upp í framhaldshóp. En þó þarf að hafa í huga að til að hægt sé að halda úti svona búðum er nauðsynlegt að þátttaka í þeim sé góð. Er það von okkar að iðkendur okkar muni fjölmenna í sumarbúðirnar, bæta sig í íþróttinni í sumar og mæta tilbúnir til leiks þegar nýtt keppnistímabil hefst haust.
Ekki er alveg ljóst hvort náist að halda úti skautaskólanámskeiðum í ágúst eins og verið hefur, en unnið er að því að sjá hvort það gangi upp, við munum setja inn upplýsingar á heimasíðu okkar um leið og niðurstaða fæst.