Andlát: Ingibjörg Hermannsdóttir

20/07/2019

Þann 5 júlí sl. lést Ingibjörg Hermannsdóttir eftir stutt veikindi. Félagsmenn og leikmenn íshokkídeildar Skautafélags Reykjavíkur voru margir þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa þekkt Ingibjörgu.  Hún kom inn í félagið til að fylgjast með barnabarni sínu, Daníel Magnússyni, sem æfði upp alla yngri flokka SR ásamt því að spila með Meistaraflokki karla áður en hann lagði skautana á hilluna þegar hann fór í nám.

Þegar Daníel var að keppa í yngri flokkunum eða Meistaraflokki SR í Skautahöllinni í Laugardal eða í Egilshöll þá sat Ingibjörg ávallt í stúkunni og hvatti SR-ingana til dáða, jafnt sinn strák sem aðra í liðinu.  Hún var á þessum tíma komin á eftirlaun og dvaldi oft lögnum stundum í Skautahöllinni og starfaði mikið fyrir Skautafélagið þar sem hún annaðist þrif á búningsklefum og á öllum liðstreyjum sem félagið hafið til umráða á þeim tíma.  Er sérstaklega minnistætt eitt skiptið þegar Meistaraflokkur SR kom að norðan, aðfaranótt sunnudags rétt um kl. 03, þá beið Ingibjörg eftir liðinu inn í Skautahöll tilbúin að taka á móti svitablautum treyjum og blautum handklæðum til að þvo og hún taldi það ekki eftir sér að standa í þvotti fram á morgun.  Þetta gerði hún eins oft og hún gat.

Skautafélagið veitti Ingibjörgu viðurkenningu fyrir störf sín fyrir félagið árið 2013 á lokahátíð félagsins þar sem allir iðkendur og félagsmenn voru mættir. Eins og henni var líkt fannst henni slík viðurkenning alger óþarfi, fannst hún ekki hafa gert svo mikið, eða eins og hún sagði “hún hafði bara svo gaman að þessu stússi”.

Ingibjörg hélt áfram að fylgjast með “strákunum sínum” í Meistaraflokki SR eftir að Daníel lagði skautana á hilluna en síðustu ár átti hún orðið erfitt um vik að koma og horfa á liðið spila í Skautahöllinni í Laugardal.

Skautafélag Reykjavíkur vottar fjölskyldu og vinum Ingibjargar sína dýpstu samúð og þakkar einlægt fyrir þann tíma sem Ingibjörg varði með félagsmönnum í gegnum árin. Hún var einstök kona.

F.h. Skautafélags Reykjavíkur,

Helgi Páll Þórisson